Pétur Ingvarsson þjálfari karlaliðs keflavíkur í körfubolta var eðlilega ekki ánægður með tap gegn nágrönnunum úr Njarðvík í kvöld. Keflavík byrjaði leikinn betur og var skrefi á undan Njarðvíkingum framan af en síðan snérust leikar í fjórða leikhluta.
Spurður út í ástæðuna sagði Pétur þetta:
„Þeir hittu gríðarlega vel í kvöld. Voru með yfir 50% nýtingu í þriggja stiga skotum. Það er kannski ekki eðlilegt. Síðan skorar leikmaður hjá þeim 44 stig sem við vorum ekki að gera ráð fyrir að yrði svona öflugur. Þeir áttu svör við öllu hjá okkur.“
Keflavík er samt skrefi á undan í fyrri hálfleik og þið raðið niður þriggja stiga körfum þá. Var það upplegg Keflavíkur í kvöld að einblína á þriggja stiga færin?
„Það er bara hluti af okkar leik og við reynum að spila hratt. Ef þristar eru í boði þá tökum við þá. Það er lang skemmtilegast og það á að vera ágætlega skilvirkt ef við hittum vel,“ sagði hann.
Ef við greinum leikinn kannski aðeins dýpra þá leit það út framan af eins og aðgerðir Keflvíkinga væru auðveldari í framkvæmd en hjá Njarðvíkingum. Ertu sammála því?
„Já ég held að það sé svo sem ekki rangt lesið hjá þér en engu að síður þá langaði þá meira í þetta. Það komu leikmenn inn á hjá þeim sem voru með Njarðvíkurhjarta og skildu allt eftir á gólfinu.
Voru kannski á mörkunum að vera grófir. Alls ekki óheiðarlega grófir. En það sem að tók okkur út af laginu var að menn voru að mæta okkur af fullri hörku og stoppaði okkar flæði,“ sagði Pétur.
Er eitthvað eitt sem þið hefðuð getað breytt og gert betur sem hefði breytt niðurstöðu leiksins?
„Við gerðum ekki ráð fyrir að Evans Raven Ganapamo myndi skora svona mikið og vorum ekki að dekka hann sérstaklega. Hann hitti rosalega vel og var með 8 þriggja stiga körfur út 12 skotum.
Það er stjörnuleikur sem við vorum ekki að gera ráð fyrir. Næst þegar við spilum við þá, þá þurfum við að setja meiri fókus á hann. Fókusinn fór svolítið í að dekka Khalil Shabazz en þá bara opnaðist fyrir Evans,“ sagði hann.
Næsti leikur er í bikarnum gegn þínum gömlu félögum í Haukum. Keflavík ætlar væntanlega að verja bikarmeistaratitilinn og vinna Hauka ekki satt?
„Já að sjálfsögðu en andstæðingar bikarmeistarana mótiverast sérstaklega við að spila gegn okkur því þau ætla að slá meistaraliðið út og munu klárlega mæta brjálaðir í leikinn.
Þeir eru með fyrrverandi þjálfara kvennaliðs Keflavíkur að stýra Haukunum og hann hefur verið inni í Facebook grúppum hjá okkur og fylgst með því sem við erum að gera og veit meira heldur en flestir um hvað við erum að gera. Þannig að þessi leikur verður mjög krefjandi fyrir okkur, líka eftir svona leik sem við vorum að spila í kvöld,“ sagði Pétur að lokum í samtali við mbl.is.