Körfuboltaþjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson krefst þess að Lárus Blöndal segi af sér sem forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ÍSÍ.
Þetta segir hann í Spjallinu með Frosta Logasyni en þátturinn er aðgengilegur á Brotkast.is en þar er hann spurður út í mál hans og körfuknattleiksliðs Aþenu í kvennaflokki en Brynjar hefur verið sakaður um að beita leikmenn sína andlegu ofbeldi með þjálfunaraðferðum sínum.
Brynjar neitar því afdráttarlaust og leikmenn liðsins hafa gefið út yfirlýsingar þar sem þær höfnuðu því alfarið að Brynjar Karl beitti þær ofbeldi.
„Ég ætla að fara fram á að Lárus Blöndal forseti ÍSÍ segi af sér. Mér finnst þetta vera svo gróft einelti. Þetta snýst ekkert um mig, ég á tvo mánuði eftir af minni baráttu, og þá fer ég að skipuleggja mín plön upp á nýtt.
En þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann gerir þetta. Hann kemur fram í einhverri pólitík, heldur að hann sé réttu megin við línuna en kynnir sér málið ekki neitt. Þetta eru svo "sloppy" vinnubrögð. Á sama tíma og hann og hans stjórn stendur í massívu einelti gagnvart einhverjum röddum," segir Brynjar Karl meðal annars en hluta af viðtalinu má sjá á Youtube: