Megum ekki halda að við séum orðnir svaka góðir

Kári, lengst til hægri, stappar stálinu í liðsfélaga sinn Kristófer …
Kári, lengst til hægri, stappar stálinu í liðsfélaga sinn Kristófer Acox í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Þetta var mjög sætur sigur í hörkuleik. Það var skemmtilegt að spila þennan leik og vonandi var gaman að horfa á hann líka,“ sagði Kári Jónsson leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir sigurinn á KR, 96:89, í framlengdum leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í Vesturbænum í kvöld.

Eftir jafntefli í venjulegum leiktíma reyndust Valsmenn sterkari í framlengingu þar sem þeir náðu mest tíu stiga forskoti.

„Við settum skot ofan í og þeir ekki. Við náðum mikilvægum stoppum í vörninni og settum niður aðeins fleiri skot en þeir. Svoleiðis eru framlengingar.

Þeir voru að gera mjög vel og við vorum að elta. Svo náðum við okkar áhlaupi í lok þriðja. Við misstum það niður aftur en gerðum vel í að halda haus og knýja fram sigur,“ sagði Kári.

Hann er uppalinn Haukamaður en finnur þrátt fyrir það vel fyrir rígnum á milli Vals og KR.

„Það er alltaf gaman að taka þátt í þessum leikjum. Það er þrusustemning og maður finnur að þetta skiptir fólk máli. Þetta eru langskemmtilegustu leikirnir.“

Valsmenn byrjuðu tímabilið mjög illa og voru í fallbaráttu um tíma. Nú eru sigrarnir orðnir sex í röð í öllum keppnum og átta af síðustu níu. Fyrir vikið er Valur í fjórða sæti og á fínum stað.

„Við erum á réttri leið en við erum ekki sáttir. Það er nóg eftir og við megum ekki halda að við séum orðnir svaka góðir því við unnum nokkra leiki. Við verðum að halda áfram að bæta okkur og sjá hvað það gefur okkur,“ sagði Kári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert