„Þeir settu stór skot í lokin í framlengingunni,“ sagði svekktur Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari karlaliðs KR í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Val, 96:89, í úrvalsdeild karla í körfubolta í framlengdum leik.
„Í venjulegum leiktíma fannst mér við aðeins á undan en þeir komu alltaf með svar. Það var ekki mikið sem skildi af. Í sókninni hefðum við viljað opna þá betur.
Við áttum í basli með að skora á köflum. Í vörninni héldum við fyrir utan þriðja leikhluta en það sem felldi okkur var að finna ekki opnari skot í sókninni,“ sagði Jakob um leikinn.
KR fékk stóran skell gegn Njarðvík í síðasta leik en mun betri frammistaða í kvöld dugði ekki til sigurs.
„Það er alltaf ógeðslega fúlt að tapa en þetta var mun betri frammistaða en á móti Njarðvík í síðasta leik. Við þurfum að nýta þetta frí vel því það er risamánuður hjá okkur í mars, bæði úrslitaleikir til að komast í úrslitakeppnina og svo bikarinn. Við þurfum sigra og helst nokkra sigra í röð. Við nýtum fríið vel og verðum klárir,“ sagði Jakob.
KR-ingar eru í miklum og hörðum slag við nokkur lið um að komast í úrslitakeppnina. ÍR, sem er eitt þeirra liða, tapaði fyrir Njarðvík fyrr í kvöld.
„Það hjálpar. Það hefði verið fúlt að missa þá fram úr okkur í fjölda sigra. Þetta er enn þá undir okkur komið og ef við gerum okkar förum við í úrslitakeppnina,“ sagði Jakob.