„Það gæti verið að ég þurfi annað nýra

Björn Kristjánsson í leik með uppeldisfélagi sínu KR árið 2021.
Björn Kristjánsson í leik með uppeldisfélagi sínu KR árið 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuboltamaðurinn Björn Kristjánsson tók skóna fram að nýju undir lok síðasta árs eftir tveggja ára hlé sem hafði ekki komið til af góðu. Nýrnasjúkdómur sem Björn greindist með árið 2017 leiddi að lokum til nýrnabilunar árið 2022 og þurfti hann að hætta nokkuð skyndilega í nóvember það ár.

Spurður nánar út í nýrnasjúkdóminn sagði Björn:

„Þetta var þannig að ég greinist árið 2017 með nýrnasjúkdóm, sem virkar í rauninni þannig að nýrun bila hægt og rólega. Það er rosalega erfitt að vita hvort það gerist eftir fimm ár, tíu ár eða hvað það er.

Svo fóru þau að dala mjög hratt haustið 2022. Ég þurfti að hætta frekar skyndilega. Mér versnaði mjög hratt á nokkrum vikum. Ég hélt ég ætti nokkur ár eftir. Svo varð það eitt ár, svo fram að áramótum og svo var það bara: „Þú þarft að hætta í dag.“ Þetta gerðist allt á svona einum mánuði.

Ég var veikur í einhverja mánuði með nýrnabilun, fór svo í aðgerð og jafna mig á henni. Ég er ennþá að jafna mig á því í dag. Það er í rauninni ekki vitað hvort sjúkdómurinn herji á nýja nýrað eða ekki. Það getur gerst en það gæti líka ekki gerst.“

​Seinni tíma vandamál

Ertu þá í reynd ekki með sjúkdóminn í dag?

„Nei, hann er ekki virkur allavega. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta komi aftur en ég veit ekki hvort það skipti einhverju máli. Gjafanýru endast ekkert það lengi, þ.e.a.s. ekki alla ævi.

Þau endast í einhver 10-15 ár hvort sem sjúkdómurinn komi aftur eða ekki. Það gæti verið að ég þurfi annað nýra einhverjum árum fyrr ef hann kemur aftur en það er seinni tíma vandamál,“ útskýrði hann.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert