Íslendingarnir eru ekki ósigrandi

Elvar Már Friðriksson reynir að komast framhjá Szilard Benke í …
Elvar Már Friðriksson reynir að komast framhjá Szilard Benke í fyrri leik liðanna í Laugardalshöllinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjallað er ítarlega um íslenska karlalandsliðið og sögu þess á heimasíðu ungverska körfuknattleikssambandsins en þjóðirnar mætast í afar mikilvægum leik í undankeppni EM á fimmtudaginn.

Leikurinn er síðasta hálmstrá Ungverja til að vera áfram með í baráttunni um sæti á EM 2025. Nái þeir ekki að vinna leikinn með meira en fjögurra stiga mun verða þeir úr leik og Ísland búið að tryggja sér EM-sætið.

Í greininni segja þeir að það verði nógu erfitt að ná að vinna leikinn með einu stigi þar sem íslenska liðið hafi sýnt sig og sannað í þessari undankeppni.

„Við sáum í leikjum gegn Íslendingum árið 2023 að þeir væru að byggja upp sterkt lið og þegar við mættum þeim í febrúar á síðasta ári (þegar Ísland vann 70:65 í Laugardalshöllinni) var gríðarlega óþægilegt að spila á móti þeim. Þeir voru stöðugt á fullri ferð, stoppuðu aldrei, skutu og skutu, og ekki bætti úr skák þegar þeir skoruðu úr þriggja stiga skotunum," segir meðal annars i greininni.

Hraðinn mun alvarlegra vandamál

Þá er sagt frá hinu nauma tapi Íslands í Tyrklandi í kjölfarið, 76:75, og sagt frá magnaðri þriggja stiga nýtingu íslenska liðsins í þeim leik, 41,7 prósent, sem hafi verið nærri búið að skila óvæntum sigri.

Bent er á að íslenska liðið hafi hitt mun lakar í sigurleikjunum gegn Ítalíu og Ungverjalandi og því sé ekki hægt að segja að það standi og falli með þriggja stiga hittninni. „Hraðinn sem þeir keyra upp í leikjunum er mun alvarlegra vandamál fyrir mótherjana."

Að lokum segir: „Íslendingarnir eru ekki ósigrandi en það þarf að halda fullri einbeitingu gegn þeim allan tímann því þeir refsa fyrir öll mistök og sjá til þess að mótherjarnir tapa boltanum oft í leiknum. Þar fyrir utan eru þremenningarnir Elvar Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson og Martin Hermannsson gríðarlega flinkir leikmenn sem ásamt Tryggva Hlinasyni spila á háu getustigi í frábærum deildum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert