Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, leikur sitt annað tímabil með Bilbao í Baskaborginni samnefndu á Norður-Spáni í vetur.
Hann flutti þangað frá Zaragoza í Aragón-héraði sumarið 2023, en þessi lið hafa verið nánast hnífjöfn um og fyrir neðan miðja deild á Spáni undanfarin ár. Tryggvi sagði við mbl.is á hóteli körfuboltalandsliðsins í Berlín í dag að þjálfari Bilbao hefði verið í stóru hlutverki í þeim félagaskiptum.
„Það spilaði margt inn í þessa ákvörðun hjá mér. Þjálfarinn hjá Bilbao, Jaume Ponsarnau, þekkti mig og ég þekkti hann því ég hef núna spilað þrisvar fyrir hann á þremur stöðum á mínum tiltölulega stutta ferli. Fyrst var hann aðstoðarþjálfari Valencia þar sem ég hóf ferilinn á Spáni, síðan aðalþjálfari Zaragoza í hátt í ár og svo er hann núna þjálfari Bilbao. Við kunnum vel hvor við annan, sem er partur af þessu.
Svo spilar margt inn í við svona skipti, hver staðan er á liðinu og hvert planið er. Það ótrúlega margt á bak við svona ákvarðanir. Ég var búinn að vera í Zaragoza í fjögur ár og það var tími kominn til að reyna sig annars staðar.
Ég kann mjög vel við mig í Bilbao þó þar sé allt öðruvísi kúltúr en í Zaragoza, og allt annað tungumál. Þetta eru tveir ólíkir staðir en mjög skemmtilegir og ég kann mjög vel við mig á báðum.“
Tryggvi samdi við Bilbao til tveggja ára sumarið 2023 og er því á seinna tímabilinu núna. Hann segist ekkert vera farinn að skoða framhaldið enn sem komið er.
„Ég er ekkert byrjaður að spá í þetta. Ég er rólegur, það er enn bara febrúar, mikið eftir af tímabilinu og margt sem á eftir að gerast áður en því lýkur. Síðan þarf að setjast niður á góðum tímapunkti, ræða og spjalla og ákveða næstu skref.”
Tryggvi hefur leikið á Spáni frá 2017 og er því á sínu áttunda ári í atvinnumennskunni þar eftir að hafa komið til Valencia frá Þór á Akureyri.
„Já, það er ótrúlegt hvað þetta kemur hratt í bakið á manni en ég er ennþá mjög góður líkamlega og andlega og vonast til að spila áfram sem atvinnumaður í átta ár í viðbót alla vega,” sagði Tryggvi aðspurður um framtíðarplönin í körfuboltanum.
En kemur bara Spánn til greina á næstu átta árum?
„Spánn er dásamlegur staður að vera á. Eftir átta ár hérna er ég með tungumálið á hreinu og ég er þekktur hérna í deildinni, þannig að ég er í dálitlum þægindaramma. Þetta er mjög góð deild, ein sú besta í Evrópu, en ég loka alls ekki á að fara eitthvert annað. Ég hef fengið boð annars staðar frá, ég leit alveg á þau og skoðaði, en við enduðum á að taka þessa ákvörðun um Bilbao.
En það er ómögulegt að vita hvað gerist í sumar - það er allt opið. Það styttist í skemmtilegan tíma þegar maður þarf að taka ákvörðun um framtíðina og það verður spennandi.”
Ítarlegt viðtal við Tryggva um landsleikinn gegn Ungverjum sem fram fer í Szombathely á fimmtudaginn og möguleika Íslands á að komast í lokakeppni EM birtist í Morgunblaðinu í fyrramálið.