Fer í skítinn með pabba

Tryggvi Snær Hlinason hefur atvinnu af því að troða bolta …
Tryggvi Snær Hlinason hefur atvinnu af því að troða bolta í körfu á Spáni en á sumrin fer hann í sveitavinnuna heima í Svartárkoti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimaslóðir körfuboltamannsins Tryggva Snæs Hlinasonar á Íslandi vekja jafnan athygli, ekki síst þegar erlendir fjölmiðlar frétta af þeim.

Tryggvi er frá Svartárkoti, langinnsta bænum í Bárðardal í Þingeyjarsýslu sem er nánast inni á hálendi Íslands. Tryggvi segir það ekki trufla sig neitt að vera oft spurður um sveitina heima, hann sé alltaf ánægður með að fá að tala um hana, og þangað liggi leiðin sífellt oftar þegar frí gefast frá vinnunni á Spáni.

„Jú, ég fer alltaf heim í Svartárkot á sumrin. Ég hef oft logið því að sjálfum mér að nú fari ég í ferðalag um Evrópu eftir tímabilið og skreppi svo heim, en það endar alltaf með því að maður tekur fyrsta flug heim og fer beint út í sveit.

Síðustu tvö sumur hef ég verið töluvert meira heima en áður, en þegar ég var yngri fór ég á alls konar sumaræfingar og mót og þá var lítill tími aflögu til að fara heim,“ sagði Tryggvi þegar mbl.is spurði hann út í heimaslóðirnar á hóteli landsliðsins í Berlín, þar sem landsliðið býr sig undir leikinn mikilvæga í Ungverjalandi á fimmtudaginn.

Þar bíða mín alltaf sömu verkin

„En seinni árin hef ég reynt að nýta sumarið betur, taka mér frí og vera heima. Þá nær maður að kúpla sig út og leika sér aðeins í sveitinni. Þar bíða mín alltaf sömu verkin, ég geri það sem ég get, fer í skítinn með pabba og sinni öllu þessu klassíska.

Það er kannski asnalegt að segja að ég fari heim í fríinu til að vinna en fyrir mér er það bara frí þó það sé ekki létt. Það er gott fyrir sálina og hjartað. Það er ekki margt sambærilegt við þetta, ég elska að koma heim og vera þar,” sagði Tryggvi Snær Hlinason.

Svartárkot er með heimasíðu þar sem sjá má eitt og annað um staðinn.

Ítarlega er rætt við Tryggva í Morgunblaðinu í dag um leik Íslands og Ungverjalands á fimmtudaginn og möguleikana á að íslenska liðið komist á EM 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert