Ísland er í 18. sæti af 32 á svokölluðum „Power Rankings" lista sem birtur er á vef FIBA, alþjóða körfuknattleikssambandsins, fyrir fimmtu og næstsíðustu umferð undankeppni EM sem er leikin á fimmtudag og föstudag.
Ísland mætir þar Ungverjalandi í Szombathely á fimmtudag þar sem allt undir fimm stiga ósigri tryggir Íslandi sæti á EM.
Liðum er raðað inn á listann út frá möguleikum þeirra á að komast í lokakeppnina en þangað komst 24 lið þannig að möguleikar Íslands eru metnir afar góðir.
Um íslenska liðið er sagt:
„Sigur og þið eruð komnir á EM. Ísland fer til Ungverjalands, það verður gríðarlega erfiður leikur þar sem ungverskir áhorfendur stjórna stemningunni. Ísland er með fimm stiga forskot úr fyrri leik liðanna og jafnvel þótt liðið tapi með meiru en fimm stigum er það enn með í keppninni því þá væri það með tvo sigra og Ungverjaland einn fyrir lokaumferðina. Íslenska liðið er því á gulu ljósi, það er smá hætta ennþá. Ekki á rauðu ljósi - en heldur ekki á grænu.“
Ungverjar eru hins vegar settir í 29. sætið og umsögnin um þá er styttri:
"Stöðunni er einfaldast að lýsa þannig: Ungverjar eru með besta liðið sem hefur tapað öllum sínum leikjum sínum í undankeppninni. Þeir verða að vinna Ísland með minnst fimm stigum til að vera enn með í baráttunni fyrir lokaumferðina. Þeir gætu enn komist áfram. En þegar staðan er 0:4 er það ekki líklegt.“
Sjö þjóðir eru þegar komnar á EM, Serbía, Litháen, Slóvenía, Ísrael, Tyrkland, Ítalía og Spánn, sem og gestgjafarnir fjórir, Kýpurbúar, Finnar, Lettar og Pólverjar.