Körfuboltamennirnir Jón Axel Guðmundsson og Styrmir Snær Þrastarson voru atkvæðamiklir með liðum sínum á Spáni og í Belgíu í gærkvöld.
Jón Axel og samherjar í San Pablo Burgos héldu áfram sigurgöngu sinni og unnu Tizona Burgos í grannaslag í spænsku B-deildinni, 77:73.
San Pablo er því áfram á toppi deildarinnar með 22 sigra í 24 leikjum en Fuenlabrada og Estudiantes eru á hælum liðsins með 21 sigur hvort. Aðeins sigurlið deildarinnar kemst beint upp í efstu deild.
Jón Axel skoraði tíu stig, tók fimm fráköst og átti þrjár stoðsendingar á 25 mínútum með San Pablo.
Styrmir Snær fagnaði líka sigri þegar Belfius Mons vann Circus Brussels á útivelli, 80:67, í BNXT-deildinni, sameiginlegri deild Belgíu og Hollands.
Mons er í 10. sæti af 19 liðum með 13 sigra í 24 leikjum og í hörðum slag um að komast í úrslitakeppnina.
Styrmir skoraði 11 stig, tók átta fráköst og átti eina stoðsendingu á 25 mínútum með Mons.