„Mér líst vel á riðilinn okkar og okkur þyrstir í að vinna okkar fyrsta sigur í lokakeppni EM," sagði Martin Hermannsson landsliðsmaður í körfuknattleik við mbl.is eftir að dregið var í riðlana fyrir EM 2025 í gær.
Þar verður Ísland í D-riðli og mætir Frakklandi, Slóveníu, Póllandi, Ísrael og Belgíu í Katowice í Póllandi en fyrsti leikurinn fer fram 28. ágúst.
„Þetta verður fyrst og fremst skemmtilegt, það skiptir mestu máli að komast í pottinn og taka því ekki sem sjálfsögðum hlut að spila á svona móti. Það er mikil spenna, a.m.k. alls staðar í kringum mig, og þetta verður hrikalega skemmtilegt. Svo er ekki verra að tvær stærstu stjörnurnar á mótinu verða í okkar riðli og það gefast ekki mörg tækifæri til að sjá þessa menn spila," sagði Martin.
Luka Doncic leikur með Slóveníu og Victor Wembanyama með Frakklandi en Doncic leikur með Los Angeles Lakers og er einn albesti körfuboltamaður heims um þessar mundir og Wenbanyama, leikmaður San Antonio, er aðeins 21 árs og þykir einn sá efnilegasti sem komið hefur fram í íþróttinni.
„Ég ætla ekki að fara að lýsa því yfir að við eigum að vinna hina og þessa því þetta er ekki þannig. Við gátum sagt það í undankeppninni en þegar þú ert kominn á lokamót þarftu að vera aðeins auðmjúkarari, hugsa um að fara og njóta þess að spila á mótinu, og vera sá lágt skrifaði sem getur gefið allt í þetta," sagði Martin sem lék með Íslandi í tvö fyrri skiptin sem liðið komst á EM, 2015 og 2017.
Í Morgunblaðinu á morgun fer Martin ítarlega yfir mótherjana fimm sem Ísland mætir í lokakeppni EM í sumar. Greinin verður m.a. aðgengileg í nýja Mogga-appinu en sá sem hleður því niður er með frían aðgang að öllu efni blaðsins fyrstu 20 dagana.