Stjarnan tók á móti Njarðvík í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkur 89:72.
Staðan í einvíginu er því 2:0 fyrir Njarðvík. Liðin mætast í þriðja sinn á miðvikudag og þar geta Njarðvíkurkonur tryggt sér þátttökurétt í undanúrslitaeinvígi.
Brittany Dinkins setti fyrstu körfu leiksins og kom sínu liði í Njarðvík yfir. Stjörnukonur jöfnuðu leikinn en með þriggja stiga körfu Kristu Gló Magnúsdóttur í stöðunni 7:4 fyrir Njarðvík má segja að Njarðvíkurkonur hafi sest í bílstjórasæti leiksins.
Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan 12:6 fyrir Njarðvík og lauk fyrsta leikhluta í stöðunni 27:22 fyrir gestina.
Njarðvíkurkonur héldu áfram að byggja upp forskot sitt í öðrum leikhluta og þegar 5 mínútur voru liðnar af honum var staðan 38:26 fyrir Njarðvíkinga. Mestur var munurinn 15 stig í stöðunni 41:26 fyrir Njarðvík.
Stjörnukonur náðu að laga stöðuna fyrir hálfleik og var staðan 45:35 fyrir Njarðvíkinga í hálfleik.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 13 stig í fyrri hálfleik og Denia Davis - Steward 10 fráköst fyrir Stjörnuna.
Brittany Dinkins skoraði 10 stig fyrir Njarðvík og tók Emilie Sofie Hesseldal 7 fráköst í fyrri hálflei.
Stjörnukonur mættu mjög ákveðnar í fjórða leikhlutann. Þær settu allt í að minnka muninn og færa spennu í leikinn. Það tókst. Kolbrún María Ármannssdóttir setti þriggja stiga körfu þegar leikhlutinn var hálfnaður og munurinn aðeins 7 stig í stöðunni 55:48.
Stjörnukonum tókst að saxa forskotið niður í 4 stig fyrir fjórða leikhluta og var staðan eftir þriðja leikhluta 61:57 fyrir Njarðvík
Fjórði leikhluti byrjaði með látum. Emilie Sofie Hesseldal setti tveggja stiga körfu og kom þeim 6 stigum yfir. Þá svaraði Stjarnan með þriggja stiga körfu frá Fanneyju Maríu Freysdóttur og munurinn aðeins 3 stig í stöðunni 63:60.
Njarvðíkurkonur leyfðu þetta ekki og settu fjórar þriggja stiga körfur í röð frá Söru Björk Logadóttur, Brittany Dinkins og tvær frá Láru Ösp Ásgeirsdóttur. Staðan orðin 75:60 fyrir Njarðvík og róðurinn ansi þungur fyrir Garðbæinga.
Með þessum kafla Njarðvíkur var munurinn of mikill fyrir Stjörnuna til að vinna niður enda var þetta eins og blaut tuska í andlit þeirra eftir frábæran kafla þar sem þær voru búnar að minnka muninn niður í þrjú stig.
Njarðvíkurkonur leiddu restina af leikhlutanum með 13-15 stigum og má segja að leikhluti sem stemmdi í algjöra háspennu hafi á endanum ekki verið svo spennandi.
Fór svo að Njarðvíkurkonur unnu 17 stiga sigur 89:72.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 17 stig fyrir Stjörnuna og tók Denia Davis- Stewart 16 fráköst.
Brittany Dinkins skoraði 25 stig, Paulina Hersler 19 stig og Emilie Sofie Hesseldal 16 stig fyrir Njarðvík og tók Eygló Kristín Óskarsdóttir 9 fráköst.