Þetta er það sem koma skal

Emilie Sofie Hesseldal sækir að körfu Stjörnunnar í kvöld.
Emilie Sofie Hesseldal sækir að körfu Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Kvennalið Njarðvíkur er í góðri stöðu gegn Stjörnunni í 8 liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta. Njarðvík vann Stjörnuna öðru sinni, 89:72 í Garðabæ í kvöld, og er 2:0 yfir í einvíginu.

 Liðin mætast aftur á miðvikudag og þá geta Njarðvíkingar komist áfram í undanúrslit með sigri. 

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur var mjög ánægður með sitt lið þegar mbl.is talaði við hann og spurði út í leikinn.

„Það voru þessir fjórir stemmningaþristar og varnarleikurinn sem klárar þetta fyrir okkur í kvöld. Lára setur tvo langt fyrir utan sem voru gríðarlega flottir. 

En varnarleikurinn í bæði öðrum og fjórða leikhluta vera frábær. Þar lokuðum við á þeirra helstu vopn og höldum þeim talsvert langt frá okkur. Ég feyki ánægður með varnarleikinn í þessum tveimur leikhlutum. Sóknarlega fannst mér þetta alveg skothelt hjá okkur.“

Njarðvík fer með 10 stiga forskot inn í hálfleikinn. Síðan í þriðja leikhluta byrjar Stjarnan að saxa forskotið niður. Hvað var að fara úrskeiðis hjá Njarðvík á þeim tímapunkti?

„Stjarnan byrjar leikinn mjög sterkt, setja fjóra þrista í fyrsta leikhluta. Stemmningaskot hjá þeim sem þær hafa ekki verið að fá mikið af. Fyrir utan fyrsta leikhluta vörðum við þriggja stiga línuna vel. Þetta er bara úrslitakeppni og þeim tókst bara að setja körfur. Við tókum eitt leikhlé þar sem við ræddum um að við værum ekki ánægð með skotavalið okkar væri ekki gott. 

Við ætluðum að reyna leita á Paulinu og hún var að sætta sig við einhver„ mid-range“ skot og kannski var galið að setja svona mikið upp á hana þar sem hún er búin vera rúmliggjandi síðustu daga og hefur ekkert náð að æfa milli leikja. 

Ég er hinsvegar svo rosalega ánægður með liðið mitt. Liðsheildin var frábær. Emilie Sofie tekur gríðarlega ábyrgð í dag og spilar mjög mikið, frábær í bæði vörn og sókn. Eygló Kristín kemur stórkostleg af bekknum, Lára Ösp gjörsamlega frábær með sína skotógn og það voru bara margir að leggja sitt á vogaskálina. Mér fannst það frábært.“

Næsti leikur er á miðvikudag í Njarðvík. Það er væntanlega markmiðið að slá Stjörnuna út þar ekki satt?

„Það er bara risaatriði í þessari úrslitakeppni að núllstilla sig milli leikja. Núna þurfum við bara að ná endurheimt, skoða hvað við gerðum vel og hvað þarf að laga. En það væri rosalega dýrmætt að ná að slá þær út í Njarðvík á miðvikudag. 

Það er mikið stolt í heimavellinum okkar og við viljum klára alla leiki þar og förum í þann leik til að vinna hann, engin spurning.“

Það virtist vera meiri stemmning í Njarðvíkurliðinu í kvöld og jafnvel meira sjálfstraust heldur en í leiknum í Njarðvík þann 1. apríl. Ertu sammála því?

„Já, ég er sammála því. Það er í raun bara í takt það sem við töluðum um og ég sagði við þig í viðtali eftir síðasta leik að við vissum að við þyrftum að spila betur í dag og vera kröftugri. 

Við vissum líka að Paulina væri tæp á að geta verið með. Hún er mikið vopn fyrir okkur upp á jafnvægi liðsins. Á sama tíma fær Stjarnan Kolbrúnu Maríu og Trzeciak aftur. Við gerðum ráð fyrir því. En mitt lið sýndi mikinn vilja og stemmningu. Þetta er það sem koma skal. Stjarnan er erfiðasti andstæðingurinn til að mæta í neðri hlutanum því þær hafa svo mikla dýpt. Margir leikmenn sem þarf að hafa áhyggjur af.

En af því þú talaðir um stemmningu þá er ég hrikalega ánægður með stuðningsmenn okkar. Mér fannst við vera á heimavelli. Vonandi verður áframhald á því með góðri mætingu í höllinni á miðvikudag og vonandi klárum við þetta einvígi þar,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert