Allar tilbúnar að láta vaða þegar pressan var mikil

Einar Árni Jóhannsson.
Einar Árni Jóhannsson. mbl.is/Ólafur Árdal

Kvennalið Njarðvíkur er komið í undanúrslit Íslandsmótsins í körfubolta eftir sigur á Stjörnunni í þriðja leik liðanna í kvöld.

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með úrslitin en vildi byrja á því að hrósa liði Stjörnunnar fyrir frábæran leik þegar mbl.is spurði hann út í leikinn.

„Frábærir kaflar, engin spurning. Ég verð samt að byrja á því að hrósa Stjörnuliðinu. Þetta er þeirra besti leikur í vetur að mínu mati. Ég er þess vegna stoltur af mínu liði að klára þetta einvígi vitandi að þær voru að spila sinn besta leik. Þær voru að skjóta gríðarlega vel, voru með tæplega 50% af þriggja stiga línunni og það kom úr ýmsum áttum.

Þannig að leggja þær þegar allt er undir fyrir Stjörnuna þá er ég bara hrikalega ánægður. Auðvitað eru fullt af hlutum sem ég get týnt til sem ég er ekki eins ánægður með. Tapaðir boltar, vondar færslur í varnarleiknum þar sem Stjarnan fær alltof mikið af körfum bæði þar sem við erum að tapa boltanum og líka þegar við hittum ekki þá fengu þær alltof mikið af auðveldum körfum á opnum velli. Þetta eru hlutir sem við verðum að laga fyrir framhaldið.

Til að súmmera upp sóknarleikinn þá er ég með þrjá erlenda leikmenn sem eru reynsluboltar og fáránlega góðar og voru allar að gera gott mót hérna í dag. En fyrir mér stendur upp úr Hulda María, Anna Lilja, Lára Ösp, Krista Gló.

Allar með risa þrista og margir þeirra djúpir í skotklukku. Fyrir mér er þetta styrkleikamerki hjá okkur. Þær voru allar tilbúnar að láta vaða þegar pressan er mikil. Þarna eru tæp 30 stig frá þessum stelpum sem eru gríðarlega dýrmæt. Margar körfur á risa mómentum. Hulda María og Lára Ösp sem dæmi setja þrista á risa mómentum.“

Nú er það spurning hvort Njarðvík sé að fara mæta Keflavík eða Grindavík. Ertu farinn að hugsa svo langt?

„Nei við bara bíðum og sjáum. Ég hef spurður hvort að Keflavík sé draumaandstæðingur. Það er auðvitað skemmtilegt þegar heilt bæjarfélag er undir og við erum alltaf búin að vera meðvituð um það að við þyrftum að fara í gegnum Keflavík ef við ætlum okkur að komast alla leið. 

Hvort að það verði í undanúrslitum eða úrslitum þarf bara að koma í ljós. Ég verð samt að viðurkenna að ég gerði ráð fyrir að Haukar og Keflavík myndu vinna sínar viðureignir svona fyrirfram og að við værum að fara mæta Keflavík. Nú bara drögum við andann og sjáum hvað næstu dagar bera í skauti sér,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert