Alvöru ljónahjörð sem mætir út á Álftanes

Mario Matasovic sækir á körfuna í leiknum í kvöld.
Mario Matasovic sækir á körfuna í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvík vann stóran sigur á Álftanesi í kvöld og sótti sér líflinu í einvíginu um að komast í undanúrslit á Íslandsmóti karla í körfuknattleik.

Njarðvíkingar eru þó enn einu tapi frá því að fara í sumarfrí og verða að vinna á þriðjudaginn til að knýja fram oddaleik í Njarðvík. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með 33 stiga sigur í kvöld og spurður út í muninn á hálfleikunum tveimur þar sem Álftanes var ívið betri í þeim fyrri á meðan Njarðvíkingar léku gesti sína grimmt í þeim seinni sagði Rúnar Ingi þetta:

„Við vorum að gera lítil mistök í fyrri hálfleik sem Álftanes refsaði okkur alltaf fyrir. Ef þeir fengu opið skot þá fór það niður og það var enginn buffer fyrir okkur til að gera mistök. Þegar fyrri hálfleikur er að klárast þá erum við 8 stigum undir en setjum síðustu 9 stig leikhlutans og erum yfir í hálfleik.

Ég er samt sammála þér að þeir voru jafnvel betri en við í fyrri hálfleik. Okkur tekst hinsvegar á þessum 9:0 kafla að fara taka einhverja brauðmola til okkar, stela boltum og koma okkur á vítalínuna. Þanni við náum að færa momentum-ið yfir til okkar.

Við töluðum síðan um það í hálfleik að nú tækju við 20 mínútur þar sem það væri bannað að gera mistök í vörninni og að við þyrftum að koma í þriðja leikhlutann með þetta momentum sem við náðum í lok fyrri hálfleiks. Það gekk upp.

Við fundum takt varnarnlega, vorum sterkir og fráköstuðum vel. Þá kom sjálfstraustið og þeirra fór niður. Þetta er bara það sem gerðist í hina áttina fyrir fjórum dögum á Álftanesi. Svona er körfuboltinn. Þetta snýst um einbeitingu, orkustig og að finna lausnir í gegnum 40 mínútur og ekki láta plata sig út eitthvað rugl.“

Næsti leikur er á þriðjudaginn á Álftanesi. Stemmningin hérna í kvöld var frábær og Njarðvíkingar sendu Álftnesinga upp í rjáfur sem eru kannski ekki blíðustu móttökurnar sem hægt er að veita. Má búast við að Álftnesingar muni beita hefndum þegar Njarðvíkingar mæta þangað og ennþá með bakið upp við vegginn fræga?

„Mér er eiginlega alveg sama. Ég trúi því eftir þessa frammistöðu í kvöld að þá verður alvöru ljónahjörð sem mætir út á Álftanes og mér er alveg sama hvar þau verða í húsinu. Sem betur fer er ekki rjáfur þar. Á meðan við finnum fyrir stuðningnum og erum að gera þetta fyrir hvorn annan og samfélagið okkar í Njarðvík þá verða mínir menn tilbúnir.

Við þurfum að eiga ennþá betri leik á þriðjudaginn og við ætlum okkur að gera það því við ætlum okkur að koma aftur hingað og setja upp annan vegg af Njarðvíkingum í oddaleik,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert