Álftanes og Njarðvík áttust við í fjórða leik liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Álftaness 104:89. Álftanes er því komið í undanúrslit en Njarðvíkingar eru komnir í sumarfrí.
Álftanes hóf leikinn af gríðarlegum krafti og má segja að þeir hafi verið með þriggja stiga stórskotahríð á körfu Njarðvíkinga. Eftir rúmlega 5 mínútna leik var staðan orðin 18:8 fyrir Álftanesi.
David Okeke var ekki með Álftanesi og skipti það engu máli því heimamenn voru betri á öllum sviðum leiksins í fyrsta leikhluta. Fór Álftanes með 9 stiga forskot inn í annan leikhluta í stöðunni 31:22.
Álftanes hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og yfirspilaði Njarðvíkinga á köflum sem áttu í stökustu vandræðum með að verjast sóknarleik heimamanna.
Undantekningin sem sannaði regluna er sú að Njarðvíkingar náðu að minnka muninn í 4 stig í stöðunni 42:38. Eftir það byrjuðu heimamenn að auka forskot sitt sem endaði með því að liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 52:41, 11 stiga forskot Álftaness sem stefndi rakleiðis í undanúrslit.
Justin James var með 16 stig og 6 fráköst í fyrri hálfleik fyrir Álftanes. Khalil Shabazz var með 13 stig fyrir Njarðvík og Dominykas Milka var með 4 fráköst í fyrri hálfleik.
Álftanes gjörsamlega keyrði yfir Njarðvík í þriðja leikhluta og náðu heimamenn 21 stigs mun í stöðunni 70:49. Til að lýsa þriðja leikhluta í stuttu máli má segja að allt hafi gengið upp í leik Álftaness en ekkert hjá Njarðvíkingum. Njarðvíkingum tókst að klóra í bakkann áður en þriðja leikhluta lauk og minnka muninn í 12 stig.
Staðan eftir þriðja leikhluta var 75:63 fyrir Álftanes.
Þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi sett þriggja stiga körfu í byrjun fjórða leikhluta þá komst Álftanes 13 stigum yfir eftir rúma mínútu í stöðunni 79:66.
Njarðvíkingar gerðu sitt besta til að minnka muninn og búa til spennandi lokamínútur í leiknum en það tókst ekki þar sem Álftanesi tókst alltaf að svara stórum skotum þegar Njarðvíkingum tókst að setja slík ofan í körfuna. Minnstur var munurinn á liðunum 8 stig í stöðunni 87:79 en lengra komust Njarðvíkingar ekki.
Fór svo að Álftanes vann sanngjarnan sigur og er komið í undanúrslit.
Justin James skoraði 26 stig og tók 12 fráköst fyrir Álftanes. Khalil Shabazz skoraði 31 stig fyrir Njarðvík og tók Dwayne Lautier 6 fráköst.
Gangur leiksins:: 7:6, 15:8, 27:16, 29:22, 36:28, 40:30, 45:38, 52:41, 58:44, 68:47, 70:51, 75:63, 83:68, 87:79, 96:83, 104:89.
Álftanes: Justin James 26/12 fráköst, Dimitrios Klonaras 22/12 fráköst, Haukur Helgi Briem Pálsson 21/5 fráköst/5 stolnir, Lukas Palyza 10, Hörður Axel Vilhjálmsson 8/6 stoðsendingar, Dúi Þór Jónsson 8, Dino Stipcic 5, Tómas Þórður Hilmarsson 4.
Fráköst: 29 í vörn, 10 í sókn.
Njarðvík: Khalil Shabazz 31/5 fráköst, Dwayne Lautier-Ogunleye 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Isaiah Coddon 14, Veigar Páll Alexandersson 11/5 stoðsendingar, Dominykas Milka 7/5 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 6, Mario Matasovic 5.
Fráköst: 20 í vörn, 5 í sókn.
Áhorfendur: 817.