Leyfum okkur að njóta þess sem við afrekuðum

Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Álftanes er komið í undanúrslit Íslandsmóts karla í körfubolta eftir sigur á Njarðvíkingum í kvöld og einvígið samanlagt 3:1. Hörður Axel Vilhjálmsson fyrirliði Álftaness var að vonum ánægður með úrslitin og þá staðreynd að Álftanes er komið í undanúrslit í fyrsta sinn. Spurður út í leikinn sagði Hörður Axel þetta.

„Samheldnin í liðinu færir okkur þennan sigur. Við vorum að hreyfa boltann vel sóknarlega. Varnarlega vorum við gríðarlega aktívir og hreyfanlegir. Við náðum að loka í götin sem þeir höfðu verið að ná að senda í síðasta leik. Í rauninni er þetta þannig að við erum tilbúnir að stíga upp, tilbúnir í okkar hlutverk og á góðum stað.“

Það er í raun ótrúlegt hversu miklar sveiflur eru milli leikja hjá liðunum. Þetta virðist allt háð því hvernig vindarnir blása hvernig liðunum gengur. Hvað útskýrir muninn á leikjum Álftaness sem veldur því að þið tapið síðasta leik með yfir 30 stigum en vinnið síðan í kvöld með 15 stigum?

Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Úrslitakeppnin bara er svona og stundum grípa liðin ákveðnum momentum. Njarðvík gerði það í seinni hálfleik í seinasta leik, sem byrjaði kannski í lok fyrri hálfleiks. Þá kom svona momentum með þeim sem þeir hlupu með og fengu stúkuna með sér.

Á sama tíma vorum við slakir og þeir að spila vörn sem við vorum ekki búnir undir og hefðum átt að bregðast betur við. Það á ekki að þurfa leik á milli til þess að aðlaga leik okkar að breyttri vörn hjá þeim. Í kvöld splúndruðum við þessari svæðisvörn hjá þeim.“

Má segja að þið hafið sett tóninn í leikinn með fjórum þristum í upphafi leiks í kvöld?

„Jú og það er það sama og ég var að nefna. Við fundum glufurnar í þessari svæðisvörn hjá þeim og fengum opin skot í kjölfarið. Við erum með hörku skotmenn sem eru til í að grípa og skjóta ef þeir eru opnir og það gerðist í kvöld.“

Það er ljóst að þið mætið Tindastóli í undanúrslitum. Þeir eru deildarmeistarar og sópuðu Keflvíkingum út í 8 liða úrslitum. Er það yfirstíganlegt fyrir Álftanes að slá Stólana út?

„Já, já, við erum að fara mæta þeim en í kvöld ætlum við aðeins að leyfa okkur að njóta þess sem við afrekuðum áðan. Síðan á morgun förum við að einbeita okkur að Tindastóli og finnum lausnir á móti þeim. Ég er fullur tilhlökkunar til að fara á Krókinn,“ sagði Hörður Axel í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert