Stjarnan hélt út og fer í undanúrslit

Júlíus Orri Ágústsson úr Stjörnunni skýtur að körfu ÍR-inga. Dani …
Júlíus Orri Ágústsson úr Stjörnunni skýtur að körfu ÍR-inga. Dani Koljanin er til varnar. Eggert Jóhannesson

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með útisigri á ÍR í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum í kvöld.

Urðu lokatölur 80:74 og unnu Stjörnumenn einvígið 3:1 eftir tvo útisigra og einn heimasigur.

Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 14:13 fyrir Stjörnuna eftir átta mínútur. Voru Stjörnumenn fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 22:18.

Gestirnir frá Garðabænum tóku öll völd á leiknum í öðrum leikhluta og bættu hægt og örugglega í forskotið allan leikhlutann. Var staðan í hálfleik 48:36.

ÍR gekk illa að minnka muninn í þriðja leikhluta og Stjörnumenn voru með stjórn á leiknum. ÍR-ingar unnu leikhlutann með tveimur stigum og var Stjarnan með tíu stiga forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, 64:54.

ÍR-ingar gáfust ekki upp og gerðu gríðarlega vel í að minnka muninn í eitt stig, 75:74, þegar lítið var eftir. Þeim tókst hins vegar ekki að jafna og Stjörnumenn sigldu sigrinum í höfn í lokin.

Orri Gunnarsson skoraði 21 stig og tók tíu fráköst fyrir Stjörnuna. Ægir Þór Steinarsson skilaði þrefaldri tvennu með 16 stigum, tíu fráköstum og tíu stoðsendingum.

Jacob Falko var í sérflokki hjá ÍR. Skoraði hann 31 stig og gaf átta stoðsendingar. Oscar Jörgensen skoraði 15 stig.

Gangur leiksins:: 2:6, 6:7, 13:14, 18:22, 21:27, 26:37, 33:42, 36:48, 40:52, 47:57, 51:59, 54:64, 64:67, 66:71, 68:74, 74:80.

ÍR: Jacob Falko 31/4 fráköst/8 stoðsendingar, Oscar Jorgensen 15, Zarko Jukic 10/6 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 5, Dani Koljanin 5, Matej Kavas 4/4 fráköst, Collin Anthony Pryor 2/6 fráköst, Tómas Orri Hjálmarsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 6 í sókn.

Stjarnan: Orri Gunnarsson 21/10 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 16/10 fráköst/10 stoðsendingar, Shaquille Rombley 13/10 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 12, Jase Febres 12/5 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 5/6 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 1.

Fráköst: 25 í vörn, 17 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Árni Ísleifsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.

Áhorfendur: 1092.

ÍR 74:80 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert