Njarðvík féll úr leik í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld eftir tap gegn Álftanesi. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkinga var eðlilega svekktur með niðurstöðuna þegar mbl.is tók hann tali strax eftir leik og spurði út í leikinn og tímabilið í heild sinni.
„Þeir koma út í leikinn og hitta gríðarlega vel. Fyrstu fjögur þriggja stiga skotin þeirra eru ofan í og eru með yfir 50% hita í þriggja stiga skotum í fyrri hálfleik. Þeir voru að hitta virkilega vel sem gerir okkur erfitt fyrir. Þeir voru auðvitað að hitta úr skotum sem við vildum ekki hleypa þeim í en það sem var öllu verra var að þeir voru að hitta úr skotum sem við vorum jafnvel til í að hleypa þeim í.
Það er oft þannig í byrjun svona leiks að ef þú kemst á bragðið og færð sjálfstraust þá byrjar þér að líða vel og þá verður restin af leiknum aðeins auðveldari. Mínir menn gáfust samt ekkert upp. Mínir menn settu allt sem þeir áttu hérna á gólfið.
Auðvitað vorum við búnir að grafa okkur ofan í djúpa holu hérna í þriðja leikhluta. En þá fannst mér menn sýna hjarta og lögðu allt í þetta á varnarvelli. Því miður var holan bara of djúp og það var ekki nóg.“
Njarðvíkingar ná að minnka muninn niður í 8 stig í fjórða leikhluta eftir að hafa verið meira en 20 stigum undir í þriðja leikhluta. Var mótvindurinn of mikill til að ná að koma alveg til baka úr þessum mikla mun?
„Eitt play til eða frá. Ef Dúi hefði ekki fengið eitt layup hérna eða Haukur hefði klikkað úr einu flotskoti þegar hann fær hann á kantinum og við fengið eina góða sókn á móti. Þetta er bara eitt play til eða frá hvort við förum í gírinn og jöfnum eða ekki. Mikið hrós fyrir Álftanes sem voru virkilega góðir í þessari seríu og áttu sigurinn skilið í kvöld.“
Tímabilinu er lokið. Þú verður áfram þjálfari Njarðvíkur eða hvað?
„Jú, ég er með samning áfram og býst ekki við neinu öðru en að ég haldi áfram. Það er samt alltaf þannig að þetta er alltaf endurskoðað og við dettum út í 8 liða úrslitum sem er ekki það sem Njarðvík vill gera. En ég er með samning í eitt ár í viðbót og býst við að ég klári það.“
Hvað með leikmenn?
„Ég er bara ekki kominn svona langt. Ég veit að við viljum alveg byggja á einhverju sem við höfum verið að gera. Það eru samt bara spurningamerki í regluverki sambandsins og deildarinnar. Við erum með leikmenn eins og Domynikas Milka, Mario Matasovic og Isaiah Cotton líka. Þetta eru gaurar sem eru bara hérna og það er spurning hvar þeir muni standa innan þessa regluverks. Það þarf að koma í ljós.
Ég myndi vilja halda sem mestum af þessum kjarna og byggja sem mest ofan á það sem við erum búnir að vera gera í vetur. Mér fannst við alveg stíga skref áfram, en núna eftir langt og strangt tímabil þar sem við erum búnir að gera vel, er tímabilið búið að vera í topp fjórum og halda heimavallarrétti í fyrstu umferð í úrslitakeppni.
Það sem svíður kannski mest er að hafa kastað því í fyrsta leik. Við lærum af þessu og komum sterkir til baka á næsta ári.“
Njarðvíkingar enda í þriðja sæti með jafn mörg stig og Stjarnan sem endar í öðru sæti. Varla var það undir pari væntinga í ljósi þess að þessi deild hefur líklega sjaldan eða aldrei verið sterkari?
„Þetta er gríðarlega sterk deild og ég er svo sem bara Njarðvíkingur í húð og hár og trúi því alltaf að þegar við erum að fara mæta andstæðingi að við getum unnið hann. Hvort sem það er alltaf raunhæft eða ekki þá er Njarðvík í þessari íþrótt til að vera á meðal þeirra bestu.
Við setjum kröfur á okkur að setja saman góð lið og viljum alltaf vera að berjast um þá titla sem eru í boði. Ef þú kannski horfir á tímabilið í heild sinni og skakkaföll sem við lendum í, sem dæmi með meiðsli Dwayne Lautier og hvernig við vorum mannaðir framan af, þá getum við alveg horft stoltir til baka og sagt að við höfum spilað skemmtilegan körfubolta og glöddum samfélagið í Njarðvík.
Ég veit samt ekki hvort ég verði eitthvað ánægður með það eftir nokkrar vikur því á endanum snýst þetta um að komast langt í úrslitakeppni og ég hefði viljað skapa fleiri geggjuð kvöld í höllinni.“
En það er þá bara næsta ár, ekki satt?
„Það er bara næsta ár. Svona virkar þetta víst. Núna er bara að læra af þessu. Ég er að taka hellings lærdóm af mínu fyrsta tímabili sem þjálfari í Bónusdeild karla þannig að við lærum af þessu og ég get alveg lofað þér því að þegar Njarðvíkurliðið kemur út á völlinn næsta haust að þá er það Njarðvíkurlið sem ætlar sér stóra hluti,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.