Stjarnan og Grindavík áttust við í fimmta leik sínum í undanúrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Stjörnunnar 74:70. Það verða því Stjarnan og Tindastóll sem mætast í úrslitaeinvíginu.
Grindavík byrjaði leikinn sterkt og setti Ólafur Ólafsson tvær þriggja stiga körfur í röð og kom Grindavík í 10:3 forystu. Stjarnan setti þá leik sinn formlega í gang og jafnaði á örskammri stund í stöðunni 13:13.
Stjarnan komst síðan yfir 18:17 og endaði leikhlutann með 4 stiga forskot í stöðunni 25:21.
Stjarnan virtist ætla að síga fram úr Grindvíkingum í öðrum leikhluta og náðu Garðbæingar 10 stiga forskoti í stöðunni 34:24. Grindvíkingar settu allan sinn fókus á þriggja stiga skotin en voru einfaldlega ekki að hitta nægilega vel úr þeim.
Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 4 stig í stöðunni 36:32 en Stjörnumenn svöruðu ítrekað þegar Grindvíkingar reyndu að minnka muninn meira. Voru hálfleikstölur því 40:36 fyrir Stjörnuna, 4 stiga munur í háspennuleik.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur en Grindavík og byggði upp 15 stiga forskot. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu að saxa það forskot niður en komust ekki lengra en niður í 9 stig fyrir lokaleikhlutann. Var ekki annað að sjá en að Grindavíkurliðið væri orðið ansi þreytt. Staðan eftir þriðja leikhluta var 62:53 fyrir Stjörnunni.
Grindavík skoraði fyrstu körfu fjórða leikhluta þegar 1:56 voru liðnar af honum. Staðan var 62:55 fyrir Stjörnunni. Grindvíkingar hófu að saxa niður forskot Stjörnunnar fyrir alvöru og tókst að minnka muninn niður í tvö stig í stöðunni 64:62 þegar 4 mínútur og 11 sekúndur voru eftir af leiknum.
Þegar 2:08 voru eftir af leiknum var munurinn eitt stig í stöðunni 66:65 eftir körfu frá Deandre Kane. Þá kom risastór þriggja stiga karfa frá Hilmari Smára Henningssyni og hann fékk að auki vítaskot sem hann skoraði úr. Staðan 70:65 fyrir Stjörnuna og sléttar 2 mínútur eftir af leiknum.
Grindavík jafnaði leikinn í stöðunni 70:70 með þriggja stiga körfu frá Lagio. Grindavík vann síðan boltann og gat komist yfir en klikkaði. Shaquille Rombley tróð síðan í næstu sókn og Stjarnan komst yfir þegar 16 sekúndur voru eftir. Grindavík freistaði þess að jafna en skot Pargo klikkaði. Þegar 2,8 sekúndur voru eftir brutu Grindvíkingar á Orra sem setti niður tvö vítaskot og staðan 74:70 fyrir Stjörnuna.
Grindvíkingar gerðu allt sem þeir gátu til að jafna en það tókst ekki og fer Stjarnan því í úrslitaeinvígið.
Hilmar Smári Henningsson skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna.
Ólafur Ólafsson og DeAndre Kane skoruðu 16 stig hvor fyrir Grindavík.
Gangur leiksins:: 5:10, 11:12, 18:17, 25:21, 32:24, 36:27, 38:34, 40:36, 47:38, 54:40, 59:48, 62:53, 62:55, 64:60, 66:63, 74:70.
Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 21/4 fráköst, Orri Gunnarsson 13/7 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 13/8 fráköst/6 stoðsendingar, Jase Febres 11/6 fráköst/3 varin skot, Hlynur Elías Bæringsson 7/8 fráköst, Shaquille Rombley 5/8 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 2, Bjarni Guðmann Jónson 2.
Fráköst: 29 í vörn, 15 í sókn.
Grindavík: Lagio Grantsaan 21/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 16/9 fráköst, Deandre Donte Kane 16/13 fráköst/7 stoðsendingar, Daniel Mortensen 9/5 fráköst, Jeremy Raymon Pargo 6/9 fráköst/8 stoðsendingar, Arnór Tristan Helgason 2.
Fráköst: 32 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.
Áhorfendur: 1158