Njarðvík knúði fram fjórða leikinn

Njarðvíkurkonur verjast Lore Devos í kvöld.
Njarðvíkurkonur verjast Lore Devos í kvöld. mbl.is/Eyþór

Njarðvík vann í kvöld Hauka 95:93 eftir rosalegan spennuleik í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum. Staðan í einvíginu er 2:1 og liðin mætast því aftur í Njarðvík á laugardag.

Njarðvíkurkonur mættu dýrvitlausar til leiks og börðust eins og ljón frá fyrstu sekúndu. Þær náðu strax 10 stiga forskoti í stöðunni 17:7 en þá loksins mættu Haukar til leiks og jöfnuðu í stöðunni 25:25. Staðan eftir fyrsta leikhluta var jöfn 27:27.

Njarðvíkurkonur mættu í enn meiri baráttuhug í öðrum leikhluta og röðuðu niður körfunum á meðan Haukar gátu ekki skorað til að bjarga lífi sínu. Þegar 8 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta var staðan 49:29 fyrir Njarðvík og Haukar búnir að skora 2 stig í öllum leikhlutanum. Á þessum tímapunkti var 20 stiga munur sem er mesti munur sem hefur orðið í öllum leikjum liðanna í þessu einvígi.

Emilie Hesseldal og Agnes Jónudóttir eigast við í leiknum í …
Emilie Hesseldal og Agnes Jónudóttir eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Haukar náðu þó að rétta sinn hlut áður en fyrri hálfleikur kláraðist og náðu góðum kafla í lokin og minnkuðu muninn í 13 stig í stöðunni 53:40 fyrir Njarðvík og spennandi seinni hálfleikur fram undan.

Haukar notuðu þriðja leikhlutann mjög vel og söxuðu enn meira niður forskot Njarðvíkur. Það skipti engu máli þó Diamond Battles hafi verið send úr húsi eftir tvær tæknivillur. Þegar þriðja leikhluta var lokið var munurinn aðeins 4 stig og staðan 75:71 fyrir Njarðvík.

Fjórði leikhluti var rosalegur svo ekki sé meira sagt. Haukar náðu forskoti í stöðunni 78:77 og komust 4 stigum yfir í stöðunni 81:77 og virtist endurtekning á fyrstu tveimur leikjunum vera að eiga sér stað þar sem Haukar unnu með góðum leik í seinni hálfleik.

Stuðningsmenn Njarðvíkur hressir í kvöld.
Stuðningsmenn Njarðvíkur hressir í kvöld. mbl.is/Eyþór

Njarðvík gaf ekkert eftir og komust yfir aftur. Eftir það skiptust liðin á að skora, gera mistök og skora stórar körfur. Má segja að áhorfendur hafi fengið miklu meira fyrir peninginn en þeir mögulega gátu óskað sér. 

Þegar innan við mínúta var eftir voru Haukar yfir í stöðunni 93:92. Krista Gló setti þá þrist fyrir Njarðvík og kom Njarðvík yfir 95:93. Þegar 9,1 sekúnda var eftir fengu Haukar boltann. Boltann misstu þær og brutu þær á Brittany Dinkins þegar 2,2 sekúndur voru eftir af leiknum. Njarðvíkingar náðu að drepa tímann og unnu sigur.

Haukar - Njarðvík 93:95

Ásvellir, Bónus deild kvenna, 07. maí 2025.

Gangur leiksins:: 6:8, 15:17, 23:24, 27:27, 27:36, 27:42, 29:49, 36:53, 49:57, 55:62, 61:72, 71:75, 77:77, 83:82, 89:88, 93:95.

Haukar: Lore Devos 35/11 fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir 18/6 fráköst, Diamond Alexis Battles 16, Þóra Kristín Jónsdóttir 12/10 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 10, Agnes Jónudóttir 2.

Fráköst: 14 í vörn, 10 í sókn.

Njarðvík: Brittany Dinkins 24/6 fráköst/9 stoðsendingar, Paulina Hersler 22/9 fráköst/8 stoðsendingar, Krista Gló Magnúsdóttir 14, Hulda María Agnarsdóttir 14, Emilie Sofie Hesseldal 12/20 fráköst, Eygló Kristín Óskarsdóttir 3, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Sara Björk Logadóttir 3.

Fráköst: 27 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Ingi Björn Jónsson.

Áhorfendur: 908

Haukar 93:95 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka