Þær bognuðu aldrei

Njarðvíkingurinn Lára Ösp Ásgeirsdóttir í leiknum í kvöld.
Njarðvíkingurinn Lára Ösp Ásgeirsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var stoltur af sínu liði sem vann Hauka á heimavelli þeirra í Hafnarfirði í kvöld, 95:93, í þriðja úrslitaleik liðanna á Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik.

Njarðvík var með bakið uppi við vegginn fræga fyrir leikinn og tókst að knýja fram fjórða leikinn í einvíginu í Njarðvík næsta laugardagskvöld en staðan er nú 2:1, Haukum í hag.

Spurður út í leikinn sagði Einar Árni þetta:

„Ég er gríðarlega ánægður með karakterinn í mínu liði. Við áttum frábæra kafla í þessum leik og spiluðum frábæran varnarleik, sérstaklega í öðrum leikhluta. Við byggjum þar upp forskot og við vorum óheppnar að fara ekki með stærri mun inn í hálfleikinn.

Á sama tíma eru fullt af hlutum sem við þurfum að skoða úr þriðja leikhluta þar sem við látum þær éta þessa forystu alltof hratt upp með blöndu af ýmsu.

Þær eru að fá óþarflega góð skot og við fylgjum því eftir með vondum töpuðum boltum sem skila þeim layup-körfum. Við vorum búnar að loka á allt þetta í fyrri hálfleik.

En það er ótrúlega margt sem við getum tekið út úr þessum leik. Orkan í liðinu, krafturinn, tempóið sóknarlega, við hreyfum boltann gríðarlega vel og síðan sýndu mínar stelpur mátt sinn og megin fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld. Þarna þekkti ég Kristu Gló, Huldu Maríu og Láru Ösp eins og þær hafa verið að spila síðustu vikur og mánuði.“

Í fyrsta skipti í þessu einvígi er Njarðvík með fleiri villur en Haukar. Má lesa úr því að Njarðvíkingar hafi mætt af alvöru hörku inn í þennan leik og svarað þokkalega grófum leik Hauka í fyrstu tveimur viðureignunum í seríunni?

„Heilt yfir var þessi leikur mjög vel dæmdur. Það voru samt villur sem við vorum að fá í seinni hálfleik sem mér fannst vera ansi soft. Á sama tíma er Brittany teikuð hérna í bak og fyrir. En heilt yfir eiga dómararnir hrós skilið fyrir að hafa stjórn á leiknum.“

Planið var að láta finna fyrir sér

Punkturinn sem ég er að spyrja um er hvort Njarðvíkurliðið hafi mætt fastara fyrir inn í þennan leik og ekki verið eins linar og þær kannski voru í fyrstu tveimur leikjunum?

„Já algjörlega og það var alltaf planið að láta finna fyrir sér. Þú mátt fá fjórar villur í körfubolta. Við gerðum það á köflum vel en á sama tíma vorum við að fá á okkur ótrúlegar klaufavillur í seinni hálfleik.

Njarðvíkingar studdu vel við sitt lið á Ásvöllum í kvöld.
Njarðvíkingar studdu vel við sitt lið á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Eyþór

En jú, við ætluðum að vera fastari fyrir og ég trúi því sem koma skal. Við erum með líkamlega sterka leikmenn og við erum með marga bakverði sem eru að dreifa álagi í kringum Brittany og stóru leikmennina okkar. Við megum alveg fá nokkrar villur.“

Það er samt væntanlega áhyggjuefni fyrir Njarðvík hversu fljótir Haukarnir voru að vinna niður 20 stiga forskot. Hvað þarf til að koma í veg fyrir það í næsta leik, að því gefnu að Njarðvík komist í forystu í næsta leik?

„Já, góður punktur. Nú þurfum við að skoða myndbönd. Við komum þessu í 20 stig og þær vinna það niður í 13 stig með lokasókn sinni í fyrri hálfleik. Ég get alveg lifað með því. Þó að við höfum náð í 20 stiga forskot þá er ekki sjálfgefið að við færum með það inn í hálfleikinn en ég hefði viljað vera með tveimur stigum meira í forskot, kannski.

En við þurfum að skoða þriðja leikhlutann vel. Hann var ekki góður hjá okkur því við vorum öll sammála um hvernig við ætluðum að nálgast hann og okkur tókst ekki ætlunarverkið þar. Það eru bara hlutir sem við förum yfir.

Við ætlum að gera betur og fækka þessum slæmu köflum og við ræddum um að vera meiri do-ers og láta vaða. Ég er hrikalega ánægður með hvernig stelpurnar brugðust við því og það kallar alveg á að við gerum smá mistök en við gerðum kannski aðeins of mikið af þeim.“

Ef við förum í lokamínútuna í leiknum. Þú ert með mikið af ungum leikmönnum í bland við reynslumeiri. Það hlýtur að vera gríðarlega mikill styrkleiki að vera hér á útivelli, með gríðarleg læti frá stúkunni og brotna ekki undan þessum áhlaupum Hauka.

„Það er stærsta hrósið á stelpurnar. Að vera hérna í þessum látum á útivelli í þessari stöðu og þær bognuðu aldrei. Þær hikuðu ekki, voru ekki að flýta sér og voru bara yfirvegaðar. Hvort sem það var Brittany, Emilie eða Paulina sem var að fá hjálpina á sig þá gerðu þær ofboðslega vel að hreyfa boltann og sýndu það eins og oft áður í vetur hversu vel þær treysta samherjum sínum sem stóðu vel undir því í kvöld,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert