Ægir Þór Steinarsson átti mjög góðan leik fyrir Stjörnuna í kvöld þegar lið hans sótti Tindastól heim í Síkið á Sauðárkróki.
Ekki dugði frammistaðan til sigurs þar sem Tindastóll vann leikinn 93:90 eftir að hafa skorað átta síðustu stigin. Liðin voru í fyrsta leik úrslitaseríunnar um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik.
„Körfuboltinn er þannig að það getur margt gerst á stuttum tíma og þannig var það í kvöld. Við vorum með leikinn í höndunum þegar innan við mínúta var eftir. Þeir settu bara tvo þrista og komust yfir. Við fengum sénsa á að vinna en það er bara stutt á milli í þessu. Það gerist mjög oft og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem leikur dettur öðru hvoru megin í blálokin í þessari úrslitakeppni. Þetta er bara einn leikur og við höldum bara áfram í næsta leik,“ sagði Ægir við mbl.is eftir leikinn.
Ægir var mjög sterkur í leiknum og ekki síst undir körfu Tindastóls. Þangað skaust hann ítrekað til að setja tvö stig á töfluna og réðu turnarnir í vörn Stólanna ekkert við kappann.
Það hlýtur að vera gaman að hlaupa svona inn í teig og skora gegn risunum?
„Auðvitað er það gaman. Maður er minni en aðrir og þarf að nýta hraðann og ýmsa tækni til að komast á hringinn. Þetta gekk að mestu leyti bara ágætlega. Mér fannst fínt jafnvægi í leiknum okkar. Við vorum að skora alls konar körfur. Það var mjög jákvætt og verður tekið með í næsta leik.“
Það er stutt á milli leikja og þig eruð nýkomnir úr oddaleik gegn Grindvíkingum. Var það eitthvað hamlandi?
„Það hafði engin áhrif. Þú sást það í dag að við vorum að hlaupa yfir þá mestallan leikinn. Við vorum í standi og verðum það. Við erum að standa okkur vel utan vallar í endurheimtinni og notum ýmis góð ráð til þess. Það eru allskyns lítil prósent sem skipta máli.“
Það var sér frétt um þig í dag að þú værir að spila þinn fyrsta leik í lokaúrslitum á Íslandi í kvöld. Var fiðringur í þér?
„Já, vissulega. Ég hef spilað í Evrópu í lokaúrslitum og ég tel mig hafa góða reynslu þaðan en þetta var nýtt. Það er alltaf fiðringur að koma að spila hér. Geggjuð stemning og frábær mæting.“
Hlynur Bæringsson virðist vera að yngjast ef eitthvað er. Hans hlutverk er stórt hjá ykkur.
„Hans gildi eru bara þannig. Hann er alltaf á fullu og er vanur vinnusemi og dugnaði. Hann stendur sig frábærlega og er dýrmætur fyrir okkur.“
Hann hefur unnið titil og spilað í nokkrum úrslitaseríum. Er hann ekki sífellt að miðla til ykkar einhverju góðu og gagnlegu?
„Auðvitað, hann er alltaf að miðla einhverri reynslu til okkar. Það er alltaf hægt að sækja í viskubrunninn hjá honum ef það er eitthvað sem vantar,“ sagði Ægir Þór að lokum.