Heldur áfram með Grindvíkingum

DeAndre Kane í leik með Grindavík í úrslitakeppninni.
DeAndre Kane í leik með Grindavík í úrslitakeppninni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grindvíkingar skýrðu frá því í kvöld að körfuboltamaðurinn DeAndre Kane myndi leika áfram með þeim á næsta keppnistímabili.

Kane, sem er 35 ára gamall Bandaríkjamaður með ungverskt vegabréf, kom til Grindvíkinga fyrir tveimur árum og hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá þeim undanfarin tvö tímabil.

Hann er með mikla reynslu og lék m.a. í tvö ár með Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í EuroLeague, sterkustu deild Evrópu, og varð þá tvisvar ísraelskur meistari með liðinu. Þá lék hann m.a. í efstu deildum Grikklands, Spánar og Rússlands.

Kane tók fram skóna eftir tveggja ára hlé til að leika með Grindavíkurliðinu. Í úrslitakeppninni á undanförnum vikum skoraði hann 22 stig að meðaltali í leik, tók 10,6 fráköst og átti 6,9 stoðsendingar, ásamt því að spila gríðarlega sterkan varnarleik með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka