Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitakeppninni um þýska meistaratitilinn í körfuknattleik með stórsigri gegn Göttingen á heimavelli, 101:69.
Þetta var lokaleikur Alba í deildinni en liðið situr hjá í lokaumferðinni um næstu helgi, og þetta er jafnframt í fyrsta sinn á tímabilinu sem liðið kemst í hóp sex efstu liðanna.
Efstu sex liðin fara beint í átta liða úrslit en liðin í sjöunda til tíunda sæti fara í umspil um tvö síðustu sætin.
Martin var næststigahæstur hjá Alba með 13 stig og næststoðsendingahæstur með sjö slíkar, og þá tók hann eitt frákast á 19 mínútum sem hann spilaði.