Þetta er aldrei búið í þessari íþrótt

Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í leikhléi á Sauðárkróki …
Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í leikhléi á Sauðárkróki í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Hinn margreyndi þjálfari Benedikt Guðmundsson slapp fyrir horn með Tindastólslið sitt í kvöld.

Liðið spilaði gegn Stjörnunni í fyrsta leik lokaúrslita Íslandsmóts karla í körfubolta og vann 93:90 eftir ævintýralega lokamínútu þar sem Tindastóll skoraði átta síðustu stigin. Hann hafði þetta að segja í viðtali við mbl.is.

„Það fyrsta sem manni dettur í hug er bara þessi íþrótt. Hvað hún er ótrúleg. Maður er búinn að vera lengi í þessu og heldur að maður sé búinn að upplifa flest eða allt. Svo gerist alltaf eitthvað sem maður hefur ekki upplifað. Þannig að þetta bara datt algjörlega okkar megin. Ég er bara ánægður að vera á réttum enda á þessum leik í lokin.“

Þið megið vera ánægðir með það. Það var ekki margt sem benti til þess að þið næðuð að krafla ykkur til baka eftir erfiðan seinni hálfleik.

„Við erum ellefu undir, svo átta undir. Við erum fimm undir þegar tæpar fimmtíu sekúndur eru eftir. Þetta er aldrei búið í þessari íþrótt. Maður hefur séð mikið gerast á töluvert færri sekúndum þannig að það er alltaf von. Það er sterkt að enda þetta á 8:0 kafla á lokamínútunni og vinna þetta svona. Ég verð að hrósa strákunum fyrir að hafa náð að klára þetta.“

Þið tókuð leikhlé í stöðunni 85:90 og 48 sekúndur eftir. Ægir virtist vera að klára leikinn fyrir Stjörnuna.

„Ægir setur risa tvist fremst á körfuna og þá héldu flestir að þetta væri búið en eins og ég segi þá er margt sem getur gerst á skömmum tíma. Tveir þristar og varið skot í millitíðinni. Skrautleg sending á Davis Geks sem rétt náði boltanum til að skjóta úr horninu. Það var akkúrat maðurinn sem manni leið vel með að væri opinn í horninu á þessum tíma. Auðvitað setti hann þetta bara niður.“

Þá var Tindastóll allt í einu í forustu 91:90 en það var samt eitthvað eftir og áður en yfir lauk hafði Ægir Þór loks verið stöðvaður og tvö víti í blálokin breyttu stöðunni í 93:90.

Dedrick Basile átti mjög góðan leik með Tindastóli. H'er sækir …
Dedrick Basile átti mjög góðan leik með Tindastóli. H'er sækir hann og Shaquille Rombley er til varnar. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Fá stórir menn minna en aðrir?

Tindastóll er með þrjá stóra og nautsterka leikmenn sem ættu að vera allsráðandi undir körfunum en þeim gekk brösulega í kvöld. Benedikt var spurður út í þeirra framlag en Dimitrios Agravanis var sérlega slakur undir körfu Stjörnumanna og hitti illa. Stórir menn fá kannski minna undir körfunni en aðrir.

„Ég hef lengi verið á því að það megi koma aðeins meira við stóra og sterka menn. Oft á tíðum vorum við bara full mjúkir. Við þurfum að vera meira granítharðir og ákveðnari Þú ferð bara sterkt upp og þá færð þú frekar villuna ef brotið er á þér. Þetta er svona“ sagði Benedikt og glotti.

Þessir risar þínir eru hreinlega að skila mun meiru utan þriggja stiga línunnar. Þetta er hálf öfugsnúið.

„Dimitrios getur spilað inni og úti. Hann vill meina að það sé meira brotið á sér undir körfunni. Við viljum að hann nýti hæðina og styrkinn til að refsa mönnum inni í teig. Það gekk ekkert allt of vel hjá honum í kvöld. Ég hef óbilandi trú á öllum í mínu liði. Ég trúi og treysti því að þeir skili okkur sigrum“

Nú eru liðin í lokaúrslitum og þá virðist mega meira.

„Jú það er víst alltaf þannig. Leyfið samt stóru mönnunum að fara á vítalínuna, ekki bara bakvörðunum“ sagði Benedikt léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka