Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Gamli refurinn frá Grundarfirði og fyrrverandi landsliðsfyrirliði, Hlynur Bæringsson, er aftur kominn í úrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik en hann leikur með Stjörnunni sem er í úrslitum á móti Tindastóli.
Hlynur lék síðast til úrslita á Íslandsmótinu árið 2010 þegar Snæfell varð Íslandsmeistari og raunar bikarmeistari einnig undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar sem nú er aðstoðarþjálfari Stjörnunnar.
Fimmtán ár voru því á milli úrslitaleikja hjá Hlyni sem er býsna magnað en Hlynur er fæddur árið 1982 og verður 43 ára í sumar. Ef flakkað er milli landa er örlítið styttra síðan Hlynur var í úrslitum í Svíþjóð með Sundsvall. Varð hann sænskur meistari árið 2011 með Sundsvall ásamt Jakobi Erni Sigurðarsyni.
Meira en tveir áratugir eru liðnir frá því Hlynur var fyrst í úrslitum en Snæfell tapaði vorið 2004 fyrir Keflavík í úrslitum Íslandsmótsins. Niðurstaðan varð sú sama 2005 og 2008 eða þar til Snæfell braut ísinn árið 2010.
Meðfylgjandi mynd er þó ekki frá úrslitarimmu Snæfells og Keflavíkur árið 2010 heldur fórum við dýpra í myndasafnið og fundum mynd frá leik KR og Snæfells árið 2002 eða frá því Hlynur var tvítugur. Myndina tók Sverrir Vilhelmsson í KR-heimilinu en þar er Hlynur á milli tveggja leikmanna KR. Annars vegar Helga Rafns Guðmundssonar (8) sem er Hólmari og lék með Hlyni í Snæfelli. Hins vegar er það Skarphéðinn Freyr Ingason sem virðist vera að góma boltann en Mývetningurinn tók hraustlega á því í lyftingasalnum á þessum árum eins og sjá má. Sverrir Vilhelmsson myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi.
Hlynur hefur afrekað margt á löngum ferli og hér verður einungis stiklað á stóru. Hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins 2008 og 2010. Var valinn besti varnarmaðurinn í Svíþjóð 2013 og 2014 en tók einnig flest fráköst allra í sænsku úrvalsdeildinni 2011, 2013 og 2016. Enginn hefur tekið fleiri fráköst í efstu deild Íslandsmótsins.
Hlynur var fyrirliði íslenska landsliðsins bæði á EM í Berlín 2015 og EM í Helsinki 2017. Hann er sjötti leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 129 A-landsleiki.
Hér heima lék hann einnig með Skallagrími fyrir utan Snæfell og Stjörnuna. Erlendis lék hann einnig með Aris Leeuwarden í Hollandi fyrir utan Sundsvall.
Hlynur hafnaði í 7. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins árið 2010.
Úrslitarimma Tindastóls og Stjörnunnar hófst á fimmtudagskvöldið á Króknum með sigri Tindastóls, 93:90, og mætast liðin öðru sinni í Garðabænum annað kvöld.