Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að sitt lið þurfi að spila nánast óaðfinnanlega ætli það sér að vinna þrjá leiki gegn Tindastóli og verða Íslandsmeistari.
„Ég met þetta þannig að við séum að spila við eitt best mannaða lið sem ég hef mætt í körfuboltaleik. Við þurfum að vera fullkomnir í öllu sem við gerum. Ef við erum það ekki þá munum við ekki vinna þá,“ sagði Baldur þegar mbl.is ræddi við hann í Garðabænum í kvöld þar sem Stjarnan jafnaði 1:1 í úrslitarimmu Íslandsmóts karla í körfuknattleik með 103:74 sigri gegn Tindastóli í öðrum leiknum í Ásgarði.
„Strákarnir voru geggjaðir í seinni hálfleik en við fengum einnig helvíti mörg víti í röð sem hjálpuðu til við að auka forskotið. Varnarleikurinn var þéttur hjá okkur og það var eiginlega lykilatriðið og verður lykilatriði í þessari baráttu,“ sagði Baldur en Stjarnan var stigi yfir að loknum fyrri hálfleik en náði afgerandi forskoti þegar leið á þriðja leikhlutann.
Ægir Þór Steinarsson átti þvílíkan stórleik með 37 stig, 7 stoðsendingar, 7 fráköst og stal boltanum tvisvar. Hvað hafði Baldur að segja um frammistöðu Ægis?
„Hann er bara elítuleikmaður. Frábær frammistaða enda er hann frábær leikmaður og persóna. Allt gott um þennan mann að segja.“