Benedikt Guðmundsson þjálfari Tindastóls fór ekki í felur með þá skoðun sína að leikmenn hans hefðu einfaldlega misst hausinn í mótlætinu í síðari hálfleik í Ásgarði í kvöld þar sem Stjarnan jafnaði metin 1:1 í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik.
Benedikt er enginn nýgræðingur í úrslitum Íslandsmótsins hvort sem það er í karlaflokki eða kvennaflokki. Stjarnan vann 103:74 og nú segir Benedikt að í ljós komi hversu sterkt Stólarnir þrá að vinna Íslandsmótið en þegar urðu deildameistarar í vor.
„Við þurfum að kafa djúpt því núna reynir virkilega á liðið. Nú kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir og hvort við höfum hausinn í þetta þegar á reynir. Nú reynir á karakterinn í hópnum og samstöðuna. Við höfum gott af því að láta bauna aðeins yfir okkur og fá drulluna yfir okkur frá fólki eftir þessa frammistöðu. Við þurfum að sýna að við viljum vinna. Þetta var ekki boðlegt í kvöld,“ sagði Benedikt þegar mbl.is tók hann tali í Ásgarði þar sem leiðir skildu í síðari hálfleik en einungis munaði einu stigi á liðunum að loknum fyrri hálfleik.
Ýmislegt gekk á í síðari hálfleik en Grikkinn Dimitrios Agravanis og landsliðsmaðurinn Sigtryggur Arnar Björnsson voru báðir reknir í bað. Agravanis fyrir ítrekuð mótmæli og athugasemdir við dómgæsluna en Sigtryggur fyrir hefnibrot á Ægi Þór Steinarssyni. Auk þess hittu Skagfirðingar illa í leiknum og mótlætið fór í taugarnar á þeim.
„Við vorum lengi inni í þessum leik þótt við værum að hitta illa. Þetta var leikur þar til seint í þriðja en þá missum við hausinn sem er ekki boðlegt. Þá köstuðum við möguleikunum frá okkur. Ég varð fyrir ofboðslegum vonbrigðum yfir því hvernig menn misstu hausinn,“ sagði Benedikt en rétt er að taka fram að hann nefndi ekki sérstaklega þessa tvo leikmenn.
Ægir Þór skoraði 37 stig fyrir Stjörnuna fyrir utan að spila afar góða vörn eins og hann er vanur. Ægir var einnig mjög góður í fyrsta leiknum sem Stólarnir unnu. Hvernig hyggst Benedikt stöðva Ægi í næstu leikjum?
„Mér fannst okkur takast það ágætlega í fyrri hálfleik. En hann fékk helling af vítum í röð í síðari hálfleik og var í góðar 17 mínútur að taka víti. Hann er ógeðslega góður og við breyttum aðeins til frá því í fyrsta leiknum. Mér fannst það ganga vel framan af. Þegar menn missa hausinn þá fara varnarfærslur og annað í algert rugl. Þá misstum við tökin á öllu saman.“