Samþykkt að minnst einn íslenskur sé innan vallar

Erlendir leikmenn eru áberandi í íslenska körfuboltanum.
Erlendir leikmenn eru áberandi í íslenska körfuboltanum. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands samþykkti á fundi sínum í gær að taka upp nýja reglu um fjölda erlendra leikmanna í leikjum á Íslandsmótinu næsta vetur.

Engar takmarkanir voru varðandi leikmenn af Evrópska efnahagssvæðinu á tímabilinu sem nú er að ljúka en stjórn KKÍ samþykkti í gær að takmarka fjölda þeirra á þann hátt að fjórir erlendir leikmenn mættu vera á leikskýrslu hverju sinni. Þar með væri tryggt að í það minnsta einn íslenskur leikmaður væri innan vallar hverju sinni.

Á ársþingi KKÍ fyrir nokkrum vikum var samþykkt þingsályktunartillaga um að stjórn KKÍ ætti að útfæra nýja reglu sem kvæði á um að tveir íslenskir leikmenn yrðu að vera inni á vellinum hverju sinni.

Breytingatillögu um að einn íslenskur leikmaður þyrfti að vera inn á hverju sinni var þá hafnað.

Samkvæmt tillögunni sem samþykkt var á þinginu, 3+2, hefðu getað verið tíu erlendir leikmenn á skýrslu og samkvæmt breytingatillögunni sem var hafnað, 4+1, hefðu þeir getað verið ellefu. Samkvæmt samþykkt stjórnar KKÍ á fundinum í gær yrði þeim hins vegar fækkað niður í fjóra í heildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert