Ármann í efstu deild í fyrsta sinn í 45 ár

Ármenningar fagna í kvöld.
Ármenningar fagna í kvöld. mbl.is/Karítas

Ármann er kominn í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í fyrsta sinn í 45 ár eftir sigur á Hamri, 91:85, í oddaleik liðanna í umspili um sæti í deild þeirra bestu í Laugardalshöllinni í kvöld. 

Ármann lék síðast í úrvalsdeildinni tímabilið 1980-1981 og snýr því aftur eftir 45 ára fjarveru. 

Ármenningar léku 22 tímabil í efstu deild á árunum 1951 til 1981 og urðu Íslandsmeistarar árið 1976. Kvennalið Ármanns vann sér líka sæti í úrvalsdeildinni í vor, í fyrsta skipti frá 1960. 

Mjög fjölmennt var í Laugardalshöllinni í kvöld og mikil stemning fyrir leiknum en Ármenningar voru sjö stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 46:39, og átta stigum yfir fyrir síðasta leikhlutann, 67:59. 

Frosti Valgarðsson með boltann í kvöld en hann reyndist hetja …
Frosti Valgarðsson með boltann í kvöld en hann reyndist hetja Ármenninga. mbl.is/Karítas

Fjórði leikhluti var hins vegar æsispennandi og Hamar fékk tækifæri til að jafna en náði ekki að hitta úr mikilvægum skotum. 

Jaxson Baker skoraði 20 stig, tók 15 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Hinn ungi Frosti Valgarðsson lokaði hins vegar leiknum með mikilvægum þristi þegar 28 sekúndur voru eftir og skoraði að auki 15 stig, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. 

Fotios Lampropoulos skoraði mest hjá Hamri eða 23 stig. 

Ármann - Hamar 91:85

Laugardalshöll, 1. deild karla, 12. maí 2025.

Gangur leiksins:: 3:5, 5:12, 14:19, 18:23, 26:27, 36:31, 41:33, 46:39, 51:44, 59:47, 63:51, 65:59, 71:68, 77:73, 81:79, 91:85.

Ármann: Cedrick Taylor Bowen 23/8 fráköst, Jaxson Schuler Baker 20/15 fráköst, Adama Kasper Darboe 16/7 fráköst/8 stoðsendingar, Arnaldur Grímsson 15/10 fráköst, Frosti Valgarðsson 15/7 fráköst, Magnús Dagur Svansson 2.

Fráköst: 33 í vörn, 15 í sókn.

Hamar: Fotios Lampropoulos 23/8 fráköst, Jaeden Edmund King 21/8 fráköst, Jose Medina Aldana 16/10 stoðsendingar, Björn Ásgeir Ásgeirsson 11/5 stoðsendingar, Lúkas Aron Stefánsson 8/4 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 4/5 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 1337

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert