Grikkinn í Tindastóli settur í bann

Dimitrios Agravanis og Orri Gunnarsosn í baráttunni.
Dimitrios Agravanis og Orri Gunnarsosn í baráttunni. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Gríski körfuknattleiksmaðurinn Dimitrios Agravanis, leikmaður Tindastóls, hefur verið úrskurðaður í eins leiks bann vegna framkomu sinnar í öðrum úrslitaleik Stjörnunnar og Tindastóls í Íslandsmótinu í körfubolta í Garðabænum í gærkvöldi. 

Dimitrios átti afleita innkomu í liði Tindastóls í gærkvöldi og lenti meðal annars í deilum við þjálfara liðsins Benedikt Guðmundsson. 

Það fauk síðan endanlega í Dimitrios í seinni hálfleik en þá lét hann dómara leiksins heyra það og var rekinn út úr húsi fyrir háttsemi sína. 

Í tilkynningu frá KKÍ segir að Dimitrios sé kominn í eins leiks bann og verður því ekki með í heimaleik Tindastóls á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið. 

Sigtryggi Arnari Björnssyni í liði Tindastóls var einnig hent úr húsi í leiknum en hann fær áminningu og getur tekið þátt í næsta leik. 

Staðan í einvíginu er 1:1 en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert