„Hver á að fylgjast með því?“

Kristinn Albertsson, formaður KKÍ.
Kristinn Albertsson, formaður KKÍ. Ljósmynd/KKÍ

„Í fyrsta lagi er þetta þingsályktunartillaga, þetta er ekki reglugerðarbreyting,“ sagði Kristinn Albertsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, um nýja reglu stjórnar sambandsins um fjölda erlendra leikmanna í leikjum á Íslandsmótinu á næsta tímabili.

Töluvert ósætti er innan körfuboltahreyfingarinnar vegna ákvörðunar stjórnar KKÍ. Á ársþingi KKÍ fyr­ir nokkr­um vik­um var nefnilega samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga um að stjórn sambandsins skyldi út­færa nýja reglu sem kvæði á um að tveir ís­lensk­ir leik­menn yrðu að vera inni á vell­in­um hverju sinni, svokölluð 3+2 regla.

Tillagan um að minnsta kosti tveir leikmenn með íslenskt ríkisfang væru inni á vellinum hverju sinni, 3+2 reglan, var samþykkt með miklum meirihluta á ársþinginu. 102 samþykktu hana og 25 höfnuðu henni. Í þeirri tillögu fólst að allt að tíu erlendir leikmenn mættu vera á leikskýrslu hverju sinni.

Tillögu Tindastóls, um að fjórir erlendir leikmenn mættu vera inni á vellinum hverju sinni og einn leikmaður með íslenskt ríkisfang, var hins vegar hafnað. 4+1 reglunni svokölluðu var hafnað með 90 atkvæðum gegn 38 sem samþykktu hana. Í tillögu Tindastóls fólst þá að allt að 11 erlendir leikmenn mættu vera á leikskýrslu hverju sinni.

Finna flöt á þriggja ára reglunni

Í samtali við mbl.is var Kristinn spurður hvers vegna stjórnin hafi ákveðið að fara ekki lengra með tillöguna um 3+2.

„Þetta eru tilmæli til stjórnar, það er það sem felst í þingsályktunartillögu. Allt í góðu með það. Þetta er það sem var beint til stjórnarinnar. En að öðru leyti var þessi tillaga svolítið óútfærð.

Það sem við eigum við með því að það sem var líka nefnt í tillögunni var að það ætti að finna einhvern flöt á svokallaðri þriggja ára reglu. Við fórum í lauslega skoðun á því og hverjir gætu mögulega uppfyllt þá reglu, leikmenn sem hafa verið þrjú ár samfellt með lögheimili á Íslandi.

Það hefði mögulega búið til fjölda leikmanna sem hefði átt rétt á slíkum réttindum.Þá hefðu þessi tvö íslensku pláss mögulega getað verið fyllt meira en minna af slíkum leikmönnum. Því þeir ættu þá að teljast til viðbótar við þrjá útlendinga. Svo er það að liðin höfðu ólíka sýn á þetta,“ sagði hann.

Aukið flækjustig komið upp

„Sumir sögðu að þetta hafi aldrei verið hugmyndin á meðan önnur lið sögðust samþykkja 3+2 þingsályktunartillöguna með þennan skilning. Það var alveg ljóst að þarna var komið ákveðið flækjustig.

Svo var hitt að binda sig við að það þurfi að vera tveir íslenskir leikmenn inni á. Í fyrsta lagi, hver á að fylgjast með því? Dómarar sögðu að þeir gætu það ekki, að þeir gætu ekki verið að fletta og fá upplýsingar um hvers konar vegabréf menn eru með og hvort menn séu mögulega á þriggja ára reglu. Það væri óvinnandi vegur.

Þá skrifast það á liðin. Hver eiga að vera viðurlögin við því? Á leikurinn að tapast? Þetta var því aukið flækjustig ef menn væru að halda sig við 3+2 regluna og binda sig við að það eigi að vera tveir íslenskir inn á,“ hélt Kristinn áfram.

Tíminn leiðir það í ljós

Hann sagði þá að nýja reglan um fjölda erlendra leikmanna myndi gera líf þjálfara einfaldara.

„Svo má nefna í þriðja lagi að löndin í kringum okkur sem við berum okkur oft saman við eru almennt ekki að gera þetta svona. Þeir eru að gera þetta með ákveðinni takmörkun á leikskýrslunni.

Sem þýðir það að þegar þjálfarinn er að stilla upp sínu liði og setja menn inn á eða út af þá getur hann horft á bekkinn hjá sér og það eru allir jafnir. Hann þarf ekki að velta fyrir sér hvort hann þurfi að passa sig og megi ekki setja þennan eða hinn inn á vegna einhverra kvóta hér og þar.

Þetta verður allt einfaldara og það er væntanlega ástæðan fyrir því að löndin í kringum okkur hafa valið að gera þetta með skýrsluleiðinni frekar en leiðinni inni á leikvellinum. Það var það sem menn horfðu til í þessari heildarmynd. Báðar leiðirnar, 4+8 eða 3+2, þeim er ætlað að styðja betur við íslenska leikmenn.

Þær gera það báðar en gera það með öðruvísi nálgun. Þannig horfum við á þetta. Tíminn verður að leiða það í ljós hvað þetta þýðir í spilatíma íslenskra leikmanna. Þetta er svona lógíkin.“

Nánar er rætt við Kristin ásamt Svala Björgvinssyni formanni körfuknattleiksdeildar Vals og Agli Ástráðssyni formanni körfuknattleiksdeildar KR í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert