Kristinn Albertsson, formaður körfuknattleikssambands Íslands, lítur ekki svo á að stjórn sambandsins hafi farið gegn vilja ársþings KKÍ með nýrri reglu um fjölda erlendra leikmanna á Íslandsmótinu næsta vetur.
Þingsályktunartillaga var samþykkt á ársþinginu um að stjórn sambandsins skyldi útfæra nýja reglu sem kvæði á um að tveir íslenskir leikmenn yrðu að vera inni á vellinum hverju sinni, svokölluð 3+2 regla.
Reglan sem stjórn KKÍ kom á fót, 4+8 regla samkvæmt Kristni, kveður hins vegar á um að einn íslenskur leikmaður verði að vera inni á vellinum hverju sinni en að alls fjórir erlendir leikmenn mættu vera á leikskýrslu og allir inni á vellinum hverju sinni.
„Nei, ég lít ekki þannig á það af því að þingsályktunartillagan var svolítið óútfærð. Stjórninni var svolítið ætlað að útfæra hana. Það sem gerist í þessari útfærslu var að það var líka ákveðið að fella niður þriggja ára regluna.
Hún átti nú að renna sitt skeið en í þingsályktunartillögunni sagði að það ætti að horfa til hennar. En með því að fara í þessa 4+8 reglu þá var samhliða sagt að það eru engir leikmenn á svokallaðri þriggja ára reglu.
Það var líka önnur leið til að einfalda málin, að vera ekki með þriggja ára regluna til viðbótar. Því hún hefði getað haft ófyrirsegjanleg áhrif sem eru ekki endilega ljós í dag. Ef þetta hefði verið reglugerðarbreyting sem hefði verið samþykkt á þinginu, þá er stjórnin algjörlega bundin af því, eðli málsins samkvæmt.
En þetta var þingsályktunartillaga sem átti að útfærast af stjórn. Ákveðnir punktar voru nefndir, þar með talin þriggja ára reglan, 3+2 og það átti líka að horfa til atvinnuréttarsjónarmiða, sem þarf að gera.
Það sem gerist líka sem mér finnst að menn hafi ekki tekið almennilega eftir er að reglan um útlendingana fjóra nær til bæði til svokallaðra Bosman A og líka Bosman B, sem er bætt við. Það eykur flóruna af leikmönnum sem geta komið hingað undir reglunni um fjóra útlendinga,“ sagði formaðurinn í samtali við mbl.is.