„Það er alveg ljóst. Ég held að það sé mikið ósætti með þessi vinnubrögð,“ sagði Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, um nýja reglu stjórnar KKÍ um fjölda erlendra leikmanna á Íslandsmótinu á næsta tímabili.
Í samtali við Morgunblaðið í dag sagði Svali að honum þætti sem stjórn KKÍ hafi ákveðið að fara gegn vilja ársþings KKÍ í útfærslu sinni á reglunni. Stjórninni hafi verið falið að útfæra þingsályktunartillögu um 3+2 reglu sem var samþykkt á þinginu en farið aðrar leiðir.
„Á hverju einasta þingi sem ég man eftir ca. 40 ár aftur í tímann er verið að tala um erlenda leikmenn og fjölda þeirra. Þar eru yfirleitt skiptar skoðanir og gott og vel. Svo kemur einhver niðurstaða á þinginu og þá vinna allir eftir því.
Í þessu tilfelli var stjórninni falið að útfæra ályktunina sem var samþykkt til þess að koma í veg fyrir erfiða og leiðinlega deilu á þinginu sem hefur aldrei göfgað einn einasta mann. Það hefur aldrei neinn sigrað í þeirri deilu,“ sagði Svali í samtali við mbl.is.
Egill Ástráðsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, kvaðst sömuleiðis hafa tekið eftir ósætti innan körfuboltahreyfingarinnar vegna útfærslu stjórnar KKÍ á reglunni.
„Já, algjörlega. Við höfum verið í hópi þeirra félaga sem hafa talað og töluðum fyrir hinni útfærslunni á þinginu. Við reyndum að takmarka fjölda erlendra leikmanna og auka hlutverk og vægi íslenskra leikmanna.
Ég held að það séu mörg félög sem eru svolítið hugsi yfir því að þetta hafi verið útfærslan sem ákveðið hafi verið að fara í,“ sagði Egill við mbl.is.
Kristinn Albertsson, formaður KKÍ, kvaðst í samtali við mbl.is ekki hafa farið varhluta af slíkri umræðu.
„Þetta er náttúrlega mjög heitt málefni og er búið að vera það. Ég hef sagt það áður að það er mjög mikilvægt að við finnum einhverja lendingu í þetta mál sem er til lengri tíma, þannig að það verði til einhver fyrirsjáanleiki. Það er þannig innan hreyfingarinnar að það eru mjög ólíkar skoðanir.
Oftar en ekki myndast þær skoðanir af stöðu hvers félags hverju sinni. Það er allavega áhrifaþáttur. En það er ekkert nýtt að það séu ólík sjónarmið og ólíkur vilji innan hreyfingarinnar. Það hefur alltaf verið um þessi mál og mun örugglega verða áfram.
Það er ekkert eitthvað sem er að koma núna. Það var fjöldinn allur af félögum sem voru mjög óánægð með það að hafa engar reglur, sem er búið að vera í gildi núna síðustu tvö tímabil. Það verða einhver félög sem verða ekkert sérstaklega ánægð að vera með 8+4 og hefðu líka ekki verið neitt sátt við að vera með 3+2.
Það er bara þannig. En ég hef sagt að það sé æskilegt að það sé sem breiðust samstaða um þetta og ég bind vonir við að það náist. Ég held að þegar menn skoði þessa 4+8 reglu dýpra í grunninn muni þeir sjá margt gott í henni, umfram 3+2 regluna. Ég er sannfærður um það.“
Kristinn sagði stjórn KKÍ ætla að standa með ákvörðun sinni.
„Já, það er sannfæring stjórnarinnar að þetta sé góð leið. Fyrirkomulagið eins og það er núna sem er án hafta – það eru engar reglur og allt opið, það má ekki gleyma því að það eru fullt af liðum sem vilja hafa það þannig. Það eru lið innan körfuboltahreyfingarinnar sem myndu kjósa að hafa þetta óbreytt.
Svo eru önnur félög sem vilja setja einhvers konar girðingar sem eiga þá að stuðla að því að auka vægi íslenskra leikmanna. 3+2 er ein leiðin til þess en það er ekkert endilega eina leiðin. Stjórnin telur sig vera að mæta þessu ákalli með þessari 4+8 reglu.
Auðvitað er það aðeins einfaldari nálgun af því að þá er engin þriggja ára regla og ekki bundið við að þú þurfir að taka eftir hverjir eru inni á vellinum heldur færist það yfir á skýrsluna. Þetta einfaldar málin en leiðir til svipaðrar niðurstöðu. Það er allavega ætlunin.“