Emil Barja, þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Hauka í körfubolta, átti erfitt með að lýsa ánægju sinni eftir dramatískan 92:91-sigur á Njarðvík eftir framlengdan oddaleik á Ásvöllum í kvöld.
Spurður út hvað það hafi á endanum verið sem gerði það að verkum að sigurinn og titillinn endaði hjá Haukum sagði Emil:
„Við settum risaskot ofan í. Tinna setti tvo þrista ásamt öllum þristunum frá Þóru Kristínu á svo ofboðslega mikilvægum tímapunktum. Ætli það sé ekki bara krafturinn sem var í mínu liði allan leikinn og í raun í allan vetur sem gerir það að verkum að við stöndum á palli í kvöld. Ég er ótrúlega stoltur af þessum stelpum.“
Hvernig undirbjóstu liðið fyrir þennan leik eftir að hafa upplifað tvo tapleiki í röð þar á undan?
„Þetta er bara úrslitaleikur og það er ekkert verið að pæla í neinu öðru. Það skipti engu máli hvernig leikirnir á undan höfðu farið. Það var bara þessi leikur sem skipti máli og áfram gakk.“
Tímabilinu er lokið og Haukar eru deildar- og Íslandsmeistarar.
„Vá, ég bara veit það ekki. Ég hef ekki pælt í því. Ég ætla bara að fagna núna og svo er frí á morgun og eftir helgi förum við að hugsa um næsta tímabil,“ sagði sigurreifur Emil Barja í samtali við mbl.is.