„Við spiluðum góða vörn í lokin og gerðum þetta vel,“ sagði Dedrick Basile leikmaður Tindastóls í samtali við mbl.is eftir 110:97-sigur á Stjörnunni í þriðja úrslitaleik liðanna á Íslandsmótinu í körfubolta á Sauðárkróki í kvöld.
Stjarnan komst yfir í fyrsta skipti í lok þriðja leikhluta en Tindastóll var mikið sterkari aðilinn á lokakaflanum.
„Við náðum í dýrmæt fráköst, dýrmæt stopp og dýrmæta stolna bolta. Við vissum að þeir myndu gefa sig alla í þennan leik.
Þetta eru tvö efstu liðin í deildinni og við áttum von á erfiðum leik. Það er gott að vinna svona hörkuleik,“ sagði hann.
Gríðarleg læti voru í Síkinu í kvöld og á Sauðarkróki í dag. Stemningin í bænum var einstök.
„Tindastóll er með bestu stuðningsmenn Íslands, engin spurning. Ég elska þessa stemningu og þess vegna kom ég hingað,“ sagði Basile.