Ef þeir vilja hafa mig áfram

Diamond Battles ánægð eftir leikinn í kvöld.
Diamond Battles ánægð eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Diamond Alexis Battles átti frábæran leik fyrir lið sitt Hauka í kvöld sem vann Njarðvík í hádramatískum, framlengdum oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik á Ásvöllum með minnsta mun, 92:91.

Diamond skoraði 20 stig, tók 4 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í leiknum. Spurð hvað hafi að hennar mati landað sigrinum fyrir Hauka sagði Diamond:

„Liðsheildin vann í kvöld. Eftir síðustu tvö töp hjá okkur þá komum við saman og endurstilltum okkur. Við vitum að við erum með svakalega liðsheild og þegar við spilum saman, hjálpumst að og spilum fyrir hvor aðra þá erum við óstöðvandi.

Þetta var rosalega jafn leikur því Njarðvík er líka með svakalegt lið. Þær eru með Brittany Dinkins, Paulinu Hersler og fleiri frábæra leikmenn. Við spiluðum gegn frábæru liði í kvöld. Sama hversu jafnt þetta var þá komumst við alltaf í gegnum það því við spiluðum saman sem lið.“

Nú er þessu tímabili lokið og þú ert Íslandsmeistari. Verður Diamond Battles áfram í Haukum á næsta tímabili?

„Ég veit það ekki. Það veltur á ýmsu. Það er í lausu lofti.“

Þannig að þú ert samningslaus en vilt vera áfram í Haukum?

„Já ég er samningslaus og ef þeir vilja hafa mig áfram þá afhverju ekki,“ sagði Diamond í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert