Síðast var þriggja daga djamm

Berglind Gísladóttir og Katrín Óladóttir eru klárar í slaginn.
Berglind Gísladóttir og Katrín Óladóttir eru klárar í slaginn. mbl.is/Jóhann Ingi

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt,“ sagði Katrín Óladóttir stuðningskona Tindastóls í samtali við mbl.is fyrir þriðja leik liðsins við Stjörnuna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta á Sauðárkróki í kvöld.

„Það er líka skemmtilegt hvað það er gott veður. Þetta er alltaf svona hér,“ bætti vinkona hennar Berglind Gísladóttir við en tæpar 20 gráður og glampandi sól er á Króknum.

Mikil spenna er fyrir leiknum, enda þriðji leikurinn í sjálfu úrslitaeinvíginu.

„Maður er með hnút í maganum en við erum spenntar líka,“ sagði Katrín. Þær eru sammála um að það geri mikið fyrir lítið samfélag eins og Sauðárkrók að eiga eitt besta körfuboltalið landsins.

„Það gerir mjög mikið. Það er gaman að hittast og að það sé eitthvað stórt um að vera,“ sagði Berglind. „Þetta er það eina sem samfélagið talar um á þessum tíma árs,“ bætti Katrín við.

Tindastóll varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti árið 2023 og þá var heldur betur mikið fjör á Króknum. „Það var ótrúlega gaman. Það var þriggja daga djamm,“ sagði Katrín og þær hlógu báðar.

Þær eiga báðar von á jöfnum og spennandi leik. „Við vinnum með fimm stigum,“ sagði Katrín. „Við vinnum þetta með tveimur og þetta verður spennuleikur,“ bætti Berglind við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert