„Stemningin er gjörsamlega frábær og það skemmir ekki fyrir að það sé 20 stiga hiti,“ sagði sjónvarpsmaðurinn Stefán Árni Pálsson í samtali við mbl.is fyrir þriðja leik Tindastóls og Stjörnunnar í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta.
„Ég mætti tæpum þremur tímum fyrir leik og það er búin að vera geðveik stemning síðan ég mætti. Þetta er algjörlega til fyrirmyndar. Stemningin hér í Síkinu verður á einhverju öðru leveli í kvöld,“ bætti Stefán við.
Hann sá um sjónvarpsþáttinn Seinni bylgjuna á Stöð 2 sport og fjallaði um handbolta, áður en hann tók við Körfuboltakvöldi á sömu sjónvarpsstöð.
„Ég er búinn að prófa úrslitakeppnina í handbolta og í körfubolta. Stemningin í þessum körfuboltahúsum, ég hef sjaldan kynnst öðru eins. Stemningin í handboltanum í Vestmannaeyjum er geggjuð en stemningin hér í Síkinu er ótrúleg. Þetta er magnaður staður.
Garðbæingar eiga líka skilið hrós því stemningin á þeirra heimavelli var rosaleg líka. Þetta hefur verið frábært í þessu einvígi. Við erum með skemmtiatriði fyrir utan, bjór og hamborgara. Þetta er orðið 5-6 klukkutíma prógram. Það er æðislega flott og gefur félögunum tekjur,“ sagði Stefán.
Það er nóg að gera hjá Stefáni þessa dagana enda búið að leika afar þétt síðustu vikur og mánuði.
„Ég er þreyttur, ég viðurkenni það. Þetta er hins vegar það skemmtilegasta sem ég geri. Ég ætla ekki að vorkenna sjálfum mér. Ég er tilbúinn að koma eftir viku í oddaleik. Svo ætla ég að hvíla mig í góða tíu daga,“ sagði Stefán léttur.