Þeir voru í handboltavörninni sinni

Ægir Þór Steinarsson með boltann í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Jóhann Helgi

Ægir Þór Steinarsson leikmaður Stjörnunnar var svekktur er hann ræddi við mbl.is í kvöld enda nýbúinn að tapa fyrir Tindastóli, 110:97, í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. Tindastóll þarf nú aðeins einn sigur til viðbótar til að verða meistari.

„Við náðum ekki stoppum og skoruðum ekki, þannig var þetta síðustu fimm mínútur. Þetta var mjög lélegt,“ sagði Ægir. Stjarnan komst yfir í fyrsta skipti í leiknum í lok þriðja leikhluta og var yfir í byrjun fjórða. Eftir það tók Tindastóll völdin og voru lokamínúturnar óspennandi.

„Mér fannst við ekki vera að elta, heldur vorum við í þeim allan tímann. Við náðum forskoti og svo rann þetta einhvern veginn úr höndunum á okkur. Þeir voru í handboltavörninni sinni allan tímann og fengu það. Það var erfitt,“ sagði hann.

Stemningin í stúkunni í einvíginu hefur verið rosaleg og var engin breyting á í kvöld. „Svona hefur þetta verið frá undanúrslitunum. Þetta er gaman og skemmtilegt að taka þátt í svona umhverfi, þótt það sé auðvitað skemmtilegra að vinna.

Stjarnan fær tækifæri til að jafna einvígið í 2:2 með sigri í fjórða leik í Garðabæ á sunnudaginn.

„Við spilum vel á heimavelli og þeir þurfa að fara í gegnum Ásgarð til að vinna. Það er okkar heimavöllur og þar vinnum við leiki,“ sagði Ægir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert