„Líðanin er svakaleg. Maður svífur um á einhverju bleiku skýi hérna. Ég mætti í vinnuna og er að reyna að einbeita mér en það gengur ekki vel!“ sagði Þóra Kristin Jónsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Hauka í körfuknattleik, er Morgunblaðið náði tali af henni í hádeginu í gær.
Þá var aðeins liðinn rétt rúmlega hálfur sólarhringur frá því Haukar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 92:91-sigri á Njarðvík í ótrúlegum framlengdum oddaleik í Ólafssal á Ásvöllum.
Þóra Kristín, sem er 28 ára bakvörður, er uppalin hjá Haukum og hefur leikið með liðinu stærstan hluta ferilsins, en lék í Danmörku í þrjú ár og nokkru áður hálft tímabil með Skallagrími í Borgarnesi. Hún sagði það sérlega sætt að leiða uppeldisfélagið til Íslandsmeistaratitils sem fyrirliði.
„Já, það er geggjað. Við erum með geggjaðan hóp. Þó að við höfum bara unnið með einu stigi þá small þetta í leiknum í gær [á þriðjudagskvöld]. Við fengum framlag frá svo ótrúlega mörgum. Það var geggjað.“
Hvað heldurðu að hafi skilað sigrinum að lokum?
„Við spiluðum betri vörn en í síðustu tveimur leikjum og hittum úr skotunum okkar, sem var kannski ekki alveg að ganga í leikjunum á undan. Svo var alvöru liðsstemning,“ sagði Þóra Kristín.
Sjálf átti hún sannkallaðan stórleik í oddaleiknum sem réð úrslitum. Þóra Kristín var stigahæst hjá Haukum með 25 stig. Þar af setti hún niður sjö þriggja stiga körfur úr 11 slíkum tilraunum.
„Ég var mjög sátt við þetta og það var geggjað að hitta úr þessum skotum,“ sagði Þóra Kristín um eigin frammistöðu í oddaleiknum og bætti við að hún væri sátt við framlag sitt á nýafstöðnu tímabili.
„Já, klárlega. Ég er mjög stolt af þessu en það var líka smá markmið hjá mér að gera betur en í fyrra. Mér finnst ég hafa komið því til skila, sem var mjög gott.“
Við þessi orð varð blaðamaður þess áskynja að Þóra Kristín hefði verið ósátt við eigin frammistöðu á tímabilinu á undan. Viðurkenndi hún að svo væri.
„Já, ég held að ég geti alveg sagt það. Mér fannst ég einhvern veginn svolítið týnd og ekki þora að taka af skarið, ekki þora að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Ég var dugleg að vinna í því síðasta sumar og í vetur.“
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og er einnig aðgengilegt í appinu Mogginn.