Körfuboltaþjálfarinn Hörður Unnsteinsson er hættur í þjálfun þrátt fyrir að hafa komið kvennaliði KR upp í efstu deild á dögunum.
Þetta tilkynnti þjálfarinn í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum Facebook en hann hefur stýrt kvennaliði KR undanfarin fimm ár.
KR tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni með sigri gegn Hamar/Þór, 3:0, í úrslitum umspils 1. deildarinnar en KR-ingar höfnuðu í öðru sæti deildarkeppninnar á eftir Ármanni.
„Eftir 5 yndisleg ár í Vesturbænum er kominn tími til að setja þjálfaraflautuna á hilluna,“ skrifaði Hörður á Facebook.
„Þetta hefur verið dásamlegur tími með mögnuðum hópi leikmanna, þjálfara, foreldra og stuðningsmanna,“ skrifaði Hörður meðal annars.