Friðrik Ingi Rúnarsson hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Hauka í körfubolta.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Friðrik Ingi, sem er 56 ára gamall, tók við þjálfun Hauka í desember á síðasta ári eftir að Maté Dalmay var sagt upp störfum í Hafnarfirðinum.
Haukar höfnuðu í 12. og neðsta sæti úrvalsdeildarinnar á tímabilinu og leika því í 1. deildinni á næstu leiktíð en liðið vann aðeins fjóra leiki af 18 í vetur.
„Kkd. Hauka vill þakka Friðriki Inga kærlega fyrir hans framlag til félagsins við krefjandi aðstæður,“ segir meðal annars í tilkynningu Hauka.
„Leit er þegar hafin að næsta þjálfara karlaliðs Hauka,“ segir ennfremur í tilkynningunni.