Ef þú ert ekki með fiðrildi er ástríðan farin

Dedrick Basile og Hlynur Bæringsson eigast við í kvöld.
Dedrick Basile og Hlynur Bæringsson eigast við í kvöld. mbl.is/Hákon

„Það vantaði fleiri varnarfráköst til að koma í veg fyrir þessi stig hjá þeim,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Tindastóls í samtali við mbl.is eftir 91:86-tap liðsins gegn Stjörnunni á útivelli í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld.

Tindastóll hefði með sigri orðið Íslandsmeistari en þess í stað er oddaleikur á dagskrá næstkomandi miðvikudagskvöld.

„Við fengum ekki fráköstin núna. Við gerðum það betur í leik þrjú og það skilaði sigri þá. Ég vil sjá mína menn setja skrokkinn í þá og stíga þá út. Það eru grunnatriði. Ef við gerum það aukum við líkurnar á sigri töluvert,“ sagði hann.

Benedikt var ekki ósáttur við frammistöðu sinna manna, sem lentu í villuvandræðum. Þjálfarinn er reyndar en svo að gagnrýna dómara í viðtölum eftir leik, þótt hann hafi stundum verið hissa á ákvörðun dómaranna í kvöld.

Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn.
Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

„Frammistaðan var ekki svo slæm. Það var góð orka en villuvandræðum höfðu áhrif. Við stjórnum því ekki. Þetta hlýtur að vera rétt hjá dómurunum. Ég verð að treysta þeim fyrir þessu,“ sagði hann.

Dimitrios Agravanis, gríski atvinnumaðurinn í liði Tindastóls, lék aðeins í rúmar fjórar mínútur í kvöld. Hann var í banni í síðasta leik í einvíginu fyrir slæma framkomu í öðrum leik. Reifst hann bæði við dómara og Benedikt sjálfan í þeim leik. Ofanrituðum fannst líkamstjáning Grikkjans ekki góð í kvöld og notaði Benedikt hann lítið.

„Ég sá ekki líkamstjáninguna. Ég prófaði hann aðeins í fyrri hálfleik en eftir það ákvað ég að prófa aðra í staðinn. Það var ákvörðun þjálfarans. Hann var bara fínn þegar hann var inn á,“ sagði þjálfarinn, sem er spenntur fyrir oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Hann leggst vel í mig. Það er gott að fá heimavöllinn. Við verðum að spila betur en Stjarnan og okkur líður vel á heimavelli. Við sjáum til hvað gerist. Við vitum að stemningin í Síkinu verður rosaleg.

Það er alltaf eitthvað stress. Ef þú ert ekki með fiðrildi er ástríðan farin. Það verða í fiðrildi í maganum á öllum fyrir þennan leik,“ sagði Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert