„Þetta var liðsframmistaða,“ sagði Jase Febres leikmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir 91:86-heimasigur á Tindastóli í fjórða úrslitaleik liðanna á Íslandsmótinu í körfubolta. Úrslitin ráðast í oddaleik á miðvikudagskvöld.
„Tindastóll á mikið hrós skilið fyrir fyrri hálfleikinn. Þeir voru að hitta ótrúlega vel fyrir utan. Við vildum vera sterkari í vörninni í seinni og liðsfélagar mínir gáfu mér sjálfstraust til að láta vita af mér,“ sagði Febres, sem var mjög góður á lokakaflanum.
„Okkar áhlaup kom síðast. Það voru tæpar tvær mínútur eftir og leikurinn jafn en meðbyrinn var okkar. Þú mátt ekkert slaka á gegn liði eins og Tindastóli og það gerðum við ekki,“ sagði hann.
Shaquille Rombley spilaði aðeins í tæpar tíu mínútur í kvöld vegna verks í brjósti. Febres sagði Rombley vera búinn að jafna sig.
„Það kom mér á óvart því ég áttaði mig ekki á því fyrr en seint í seinni hálfleik að hann væri ekki með. Það mikilvæga er að honum líður vel. Hann ætti að vera klár í fimmta leikinn,“ sagði hann og hélt áfram:
„Við verðum að spila af ákefð og þrautseigju. Við vorum yfir í síðasta leik þegar það var lítið eftir. Vonandi leyfa dómararnir okkur að spila harðan leik. Við reynum að koma með sigurinn heim.
Þetta var sturlað í kvöld. Þetta eru mestu læti sem ég hef spilað í. Stuðningsmennirnir okkar gefa okkur mikinn kraft og við erum mjög þakklátir,“ sagði Febres.