Þessi sigur var fyrir Shaq

Stuðningsmenn Stjörnunnar í kvöld.
Stuðningsmenn Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Hákon

Ægir Þór Steinarsson leikmaður Stjörnunnar skoraði 17 stig, tók 2 fráköst og gaf 8 stoðsendingar í kvöld þegar lið hans vann Tindastól og tryggði sér hreinan oddaleik næsta miðvikudag á Sauðárkróki.

Spurður út í leikinn í kvöld og ótrúlega endurkomu Stjörnunnar í síðasta leikhlutanum sagði Ægir þetta:

„Mjög erfiður leikur að spila. Við sýndum karakter í kvöld og sóttum sigurinn ólíkt síðasta leik þar sem við náðum því ekki. Ég er ánægður með þá breytingu hjá okkur.“

Skagfirðingar mæta kolvitlausir í leikinn og byrja ansi sterkt. Það leit allt út fyrir að þeir ætluðu hreinlega að keyra yfir ykkur hér í kvöld. Það gerðist hins vegar ekki og þið vinnið á endanum með því að vera yfir í lokaleikhlutanum. Hvað gerðist?

„Já, já, við erum búnir að spila fullt af svona leikjum í úrslitakeppninni. Við höfum lent á mörgum veggjum en alltaf hlaupið í gegnum þá. Aldrei litlir í okkur. Við höfum tapað erfiðum leikjum en alltaf sýnt karakter og unnið í kjölfarið. Það sýnir okkar karakter.

Við erum strax byrjaðir að hugsa um oddaleikinn á miðvikudaginn. Þetta er risastórt tækifæri sem við erum að fá hérna til að fara norður og sækja sigur og titilinn í leiðinni. Ég er mjög spenntur fyrir því.“

Hvað þarf til að vinna Tindastól í oddaleik í Síkinu á Sauðárkróki?

„Það þarf bara allt að ganga upp eins og í síðustu tveimur leikjum. Það þarf að spila vörn. Þú þarft að gera það í 40 mínútur og þá tengir þú sóknina og það er það sem við viljum.“

Shaquille Rombley fær verk fyrir brjóstið í hálfleik. Hafði það engin áhrif á þitt lið í kvöld?

„Nei, við elskum Shaq og það hefur gefið okkur auka kraft því við þurftum allir að stíga upp þar sem hann hefur varið körfuna okkar og tekið fráköstin fyrir okkur. Við vonum bara að allt verði í lagi með okkar mann. Þessi sigur var fyrir hann,“ sagði Ægir Þór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert