Stjarnan vann Tindastól í fjórðu undanúrslitaviðureign liðanna í Garðabæ, 91:86. Það er því hreinn oddaleikur um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta á miðvikudaginn í Síkinu, heimavelli Tindastóls á Sauðárkróki.
Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar var hálforðlaus þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.
„Ég veit ekki hvað ég á að segja við þig. Ég er stoltur af þessu liði,“ sagði Hlynur spurður út í hans fyrstu viðbrögð við ótrúlegum sigri. Hann hélt síðan áfram:
„Magnað að við séum komnir í hreinan úrslitaleik um titilinn á Sauðárkróki þar sem er stórkostlegt lið og stórkostleg umgjörð. Okkar besti maður, Shaquille Rombley, lendir í einhverju atviki í hálfleik. Við vonum bara að yfir honum vaki allar góðar vættir.
En leikurinn var rosalegur. Við svöruðum fyrir tapið í síðasta leik. Þeir höfðu tvo leiki til að verða meistarar og við þáðum bara tækifærið til að fara í seinni leikinn. En ég er bara ánægður með þennan sigur.“
Tindastóll byrjar leikinn gríðarlega vel og leiðir nánast allan leikinn. Það stefndi allt í að Íslandsmeistaratitlinum yrði lyft hér í kvöld en þið Stjörnumenn þvertókuð fyrir það og vinnið hér í síðasta leikhlutanum. Hvað gerðist eiginlega?
„Við náðum lykilstoppum og fráköstum. Síðan þegar það var orðið erfitt að skora þá kom Hilmar Henning sem er búinn að vera magnaður í þessari úrslitakeppni og keyrði þetta áfram fyrir okkur. Hann er svona leikmaður sem þarf lítið til að skora körfur. Það kviknaði líka á Jase í seinni hálfleik.
Síðan er þetta bara þannig að við setjum eitthvað ofan í á meðan þeir fóru að klikka. Þetta er bara þannig stundum.“
Síðan er eitt stykki reynslubolti sem heitir Hlynur Bæringsson í Stjörnuliðinu sem var allt í öllu hér í lokin. Ertu alveg uppgefinn eftir þennan leik?
„Ég er mjög þreyttur. En ég var ekkert allt í öllu. Ég reyni að standa mína pligt varnarlega og láta boltann vinna sóknarlega. Ég reyni að hvíla mig eins og ég get í sókninni. En eins og þú sérð þegar þú horfir upp í stúku þá erum við augljóslega öll í þessu saman, leikmenn og stuðningsmenn.“
Hvað þarf til að verða Íslandsmeistari á Sauðárkróki næsta miðvikudag?
„Tindastóll er með frábært lið. Sjáðu mannskapinn sem þeir eru með. Þeir eru að fá gríðarlega sterka leikmenn af bekknum. Ég held að ég myndi ekki spila margar mínútur með Tindastóli. Væri bara geymdur á bekknum.
Við þurfum að spila okkar besta leik í vetur á miðvikudag. Ef það trúa allir á það að þá getur allt gerst. Við förum þangað fullir sjálfstrausts og reynum að hafa gaman af þessu þegar við reynum að sækja titilinn,“ sagði Hlynur í samtali við mbl.is.