Pétur tekinn við Haukum

Pétur Ingvarsson ásamt Brynjari Þór Þorsteinssyni formanni körfuknattleiksdeildar Hauka.
Pétur Ingvarsson ásamt Brynjari Þór Þorsteinssyni formanni körfuknattleiksdeildar Hauka. Ljósmynd/Haukar

Pétur Ingvarsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hauka í körfuknattleik. Skrifaði hann undir tveggja ára samning sem gildir til sumarsins 2027.

Pétur tekur við starfinu af Friðriki Inga Rúnarssyni sem lét af störfum fyrir helgi. Honum tókst ekki að halda liðinu í úrvalsdeild eftir að hafa tekið við af Máté Dalmay um mitt tímabil.

Haukar leika því í 1. deild á næsta tímabili og fær Pétur það verkefni að koma uppeldisfélagi sínu í deild þeirra bestu að nýju.

Pétur þjálfaði síðast karlalið Keflvíkinga frá sumrinu 2023 en hætti þar störfum í byrjun febrúar. Áður þjálfaði hann karlalið Breiðabliks í nokkur ár.

„Ég er mjög þakklátur Brynjari formanni og stjórn körfuknattleiksdeildar Hauka að fá þetta tækifæri. Markmiðin eru skýr að koma Haukum aftur upp í deild þeirra bestu byggt á Haukamönnum sem eru tilbúnir að berjast um titla,“ sagði Pétur í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert