„Ja hérna. Þetta voru meiri lætin.“
Þetta kom í hugann eftir lok átta liða úrslitanna í NBA-deildinni í körfubolta, eftir eina merkilegustu umferð í sögu keppninnar.
Eftir að hafa fylgst með NBA í yfir hálfa öld man undirritaður ekki eftir jafn mörgum óvæntum úrslitum í einni umferð úrslitakeppninnar og þeirri sem lauk með sigri Oklahoma á Denver, 125:93, í oddaleik liðanna.
Lætin hófust þegar útiliðin unnu sex af fyrstu sjö leikjunum og eftir það var flestum af bestu liðunum sparkað út úr keppninni.
Fyrir þessa umferð voru allir á því að Cleveland og Boston væru örugg um að komast í úrslitarimmu Austurdeildar, en á endanum höfðu Indiana og New York – já mínir Knickerbockers – aðrar hugmyndir.
Indiana sýndi gegn Cleveland að liðið var vanmetið, þrátt fyrir að það hefði komið inn í úrslitakeppnina á góðum dampi. Cleveland komst einfaldlega aldrei á skrið og Tyrese Halliburton og félagar frá Indiana gáfu hvergi eftir og áttu á endanum ekki í miklum vandræðum með að slá Cleveland út.
Rimma gömlu erkifjendanna Boston og New York mun lifa lengi í minningu aðdáenda Knicks – þar á meðal stjarna skemmtanaheimsins í sætunum við völlinn.
Meistarar Boston voru taldir meira en sigurstranglegir þar sem þeir höfðu átt í litlum erfiðleikum með Knicks í vetur. Það sem gerðist þegar leikirnir hófust var að þegar Boston hætti að hitta úr þriggja stiga skotum sínum í seinni hálfleik fyrstu tveggja leikjanna var ekkert aukaplan á þeim bænum og leikmenn New York unnu upp tuttugu stiga forskot í báðum leikjum sem þeir unnu á lokasekúndunum.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag og í appinu Mogginn.